„Ég er mjög ánægður með þennan sigur,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í gær.
Orri Steinn Óskarsson og Jón Dagur Þorsteinsson skoruðu mörk íslenska liðsins en þau komu bæði eftir hornspyrnur í sitthvorum hálfleiknum.
„Við vorum mjög öflugir varnarlega. Við vörðumst vel sem lið og þeir voru ekki að skapa sér nein afgerandi marktækifæri. Hákon varði vel frá þeim úr þeim færum sem þeir sköpuðu sér. Sóknarlega vorum við kannski ekki að skapa okkur neitt sérstaklega mikið en á sama tíma þá nýttum við föstu leikatriðin okkar vel. Þrjú stig og við höldum markinu hreinu þannig að það er ekki annað hægt en að vera ánægður með það,“ sagði Gylfi.
Gylfi lék sinn fyrsta landsleik í tæpt ár í kvöld en hann lék síðast með landsliðinu í október á síðasta ári.
„Það er mjög gaman að koma til baka í landsliðið og að vinna gerir það ennþá skemmtilegra. Það er gott fyrir liðið að hafa leikmenn eins og mig, Jóhann Berg og Guðlaug Victor. Við höfum farið á stórmót og spilað marga landsleiki. Við erum með reynslu og erum mjög meðvitaðir um það hversu mikilvægt það er að gera litlu hlutina rétt. Það er ákveðin ábyrgð sem fylgir því líka og það er okkar að stýra yngri leikmönnum liðsins í rétta átt.“
Gylfi fór af velli á 65. mínútu en hann glímdi við magakveisu í aðdraganda leiksins.
„Ég fékk einhverja veirusýkingu. Vonandi er þetta bara sólahringspest. Ég fann það í leiknum að orkan var ekki mikil og ég hefði líklegast ekki getað spilað mikið meira þó ég hefði aldrei beðið um skiptingu. Åge gerði mér eflaust bara greiða með því að taka mig út af. Ég var orkulítill og var ekki með kraftinn til þess að spila í hæsta gæðaflokki. Ég reikna því með því að ég verði ekki lengi að jafna mig eftir þennan leik,“ sagði Gylfi Þór í samtali við mbl.is.