Valskonur eru úr leik í Meistaradeild kvenna í fótbolta eftir tap gegn hollensku meisturunum Twente, 5:0, í úrslitaleik um sæti í 2. umferð í Enschede í Hollandi í dag.
Liðin unnu bæði stórsigra í undanúrslitaleikjum sínum á miðvikudaginn en hollenska liðið var sterkari aðilinn í dag og vann sannfærandi sigur eftir að staðan var 3:0 í hálfleik.
Charlotte Hulst og Nikée Van Dijk skoruðu tvö mörk hvor fyrir Twente í dag og Kayleigh Van Dooren eitt. Amanda Andradóttir kom inn á sem varamaður hjá Twente á 73. mínútu en hún kom til félagsins frá Val í sumar.
Twente fékk tvö góð færi strax á 8. mínútu. Fanney Inga Birkisdóttir varði þá frá Kayleigh Van Dooren sem síðan skaut í stöngina í kjölfarið. Twente átti sex markskot gegn engu á fyrstu 15 mínútum leiksins.
Valskonur ógnuðu marki Twente í fyrsta skipti á 21. mínútu þegar velski markvörðurinn Olivia Clark varði frá Jasmín Erlu Ingadóttur.
Twente náði forystunni á 22. mínútu þegar Charlotte Hulst skoraði, 1:0, eftir sendingu frá Lieske Carleer.
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir átti aðra marktilraun Vals á 25. mínútu en skaut framhjá marki hollensku meistaranna. Anna Rakel Pétursdóttir átti skot beint úr aukaspyrnu þremur mínútum síðar sem Clark varði og rétt á eftir skaut Ragnheiður aftur framhjá marki Twente.
Liðin ógnuðu síðan til skiptis og Fanney Inga varði tvívegis með nokkurra mínútna millibili frá Van Dooren.
Twente komst í 2:0 á 40. mínútu. Etir aukaspyrnu sendi Sophie Te Brake á Hulst sem skoraði sitt annað mark fyrir hollensku meistarana.
Twente lét kné fylgja kviði og á 42. mínútu skoraði Nikée Van Dijk eftir sendingu frá Van Dooren, 3:0.
Jasmín Erla átti skot framhjá marki Twente á 44. mínútu en staðan var 3:0 í hálfleik.
Pétur Pétursson gerði eina breytingu í hálfleik þegar hann setti Ísabellu Söru Tryggvadóttur inn á fyrir Ragnheiði Þórunni Jónsdóttur. Ísabella kom einmitt inn á í hálfleik gegn Ljuboten á miðvikudaginn og skoraði þá þrennu.
Fanney Inga þurfti að verja skot strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks, frá Ellu Peddemors.
Ísabella Sara var fljót að minna á sig því á 48. mínútu átti hún skot sem Olivia Clark varði í horn. Ísabella var aftur á ferðinni á 54. mínútu þegar hún skaut framhjá marki Twente eftir hornspyrnu Fanndísar Friðriksdóttur. Fjórum mínútum síðar átti Fanndís skot framhjá markinu.
Natasha Anasi skaut framhja marki Twente á 61. mínútu eftir aukaspyrnu Fanndísar.
Pétur gerði tvöfalda skiptingu á 65. mínútu þegar hann tók Guðrúnu Elísabetu Björgvinsdóttur og Hailey Whitaker af velli og sendi Nadíu Atladóttur og Elísu Viðarsdóttur inn á í þeirra stað.
En það var Twente sem bætti við marki á 69 mínútu þegar Hulst lagði upp mark fyrir Kayleigh Van Dooren, 4:0. Fanney varði frá Hulst en Van Dooren fylgdi á eftir og skoraði.
Amanda Andradóttir fékk loks tækifæri gegn sínum gömlu félögum í Val þegar henni var skipt inn á sem varamanni hjá Twente á 73. mínútu í stað markaskorarans Charlotte Hulst. Amanda kom til félagsins frá Val í sumar og skoraði eitt markanna þegar Twente vann Cardiff City frá Wales 7:0 í undanúrslitunum á miðjudaginn en hóf leik á varamannabekknum í dag.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir kom inn á hjá Val á 78. mínútu fyrir Fanndísi Friðriksdóttur.
Jasmín Erla átti skot að marki Twente á 80. mínútu en Olivia Clark varði. Á næstu mínútu má eftir áttu Nadía Atladóttir og Jasmín Erla skot að markinu sem Clark varði einnig. Leikurinn var opinn á lokakaflanum og færi á báða bóga. Valskonur stöðvuðu m.a. Amöndu á síðustu stundu á 90. mínútu.
Það endaði með því að Nikée Van Dijk skoraði sitt annað mark á 90 mínútu eftir sendingu frá Bormans.
Lið Vals: (4-4-2) Fanney Inga Birkisdóttir - Hailey Whitaker (Elísa Viðarsdóttir 65.), Lillý Rut Hlynsdóttir, Natasha Anasi, Anna Rakel Pétursdóttir - Fanndís Friðriksdóttir (Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir 78.), Berglind Rós Ágústsdóttir, Katie Cousins, Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir (Ísabella Sara Tryggvadóttir 46.) - Jasmín Erla Ingadóttir (Málfríður Erna Sigurðardóttir 90.), Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir (Nadía Atladóttir 65.)
Varamenn: Íris Dögg Gunnarsdóttir (m), Arna Sif Ásgrímsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Nadía Atladóttir, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, Ísabella Sara Tryggvadóttir, Helena Ósk Hálfdánardóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
Valur burstaði norðurmakedónsku meistarana Ljuboten, 10:0, í undanúrslitum riðilsins í Enschede á miðvikudaginn og Twente vann stórsigur á velsku meisturunum Cardiff City, 7:0.