Íslenska karlalandsliðinu í fótbolta hefur gengið sérlega vel gegn því tyrkneska í gegnum tíðina en liðin mætast í Izmir í Tyrklandi í Þjóðadeildinni annað kvöld.
Åge Hareide landsliðsþjálfari sat blaðamannafund á vellinum í dag og var spurður af tyrkneskum blaðamanni hvort sagan hjálpi Íslendingum á morgun.
„Vonandi,“ sagði Hareide og hló. „Við berum mikla virðingu fyrir Tyrklandi, sérstaklega á þeirra heimavelli. Ég veit að Tyrkir elska fótbolta og styðja landsliðið sitt vel, rétt eins og Íslendingar,“ sagði hann og hélt áfram:
„Það er alltaf mikil stemning í Tyrklandi. Það getur virkað í báðar áttir því tyrkneskir stuðningsmenn búast við miklu af leikmönnum og það getur búið til pressu. Ég veit þessi stemning mun lyfta upp mínum leikmönnum.“
Annar tyrkneskur blaðamaður spurði þá þann norska hvort það væri einhver í tyrkneska liðinu sem hann væri til í að vera með í íslenska liðinu. „Ég er mjög ánægður með þá leikmenn sem ég er með. Ég myndi ekki skipta þeim út fyrir neinn,“ svaraði hann.