„Sagan er ekki með okkur því okkur hefur gengið illa á móti Íslandi í gegnum tíðina,“ sagði Vincenzo Montella þjálfari tyrkneska landsliðsins í fótbolta á blaðamannafundi í dag. „Við höfum aðeins unnið þá tvisvar og síðast fyrir níu árum síðan,“ sagði sá ítalski.
Ísland og Tyrkland mætast í Þjóðadeildinni í Izmir í Tyrklandi annað kvöld og hefur tyrkneska liðið verið einn uppáhalds andstæðingur þess íslenska í gegnum tíðina. Í 13 leikjum er Ísland með átta sigra og Tyrkland aðeins tvo.
Montella vildi ekki nefna nöfn, aðspurður hvort tyrkneska liðið þyrfti að varast einhvern leikmann hjá íslenska liðinu.
„Ég ætla ekki að nefna neitt nafn. Íslenska liðið spilar sem lið. Þeir eru mjög hættulegir í föstum leikatriðum og innköstum sömuleiðis. Við verðum mjög undirbúnir,“ sagði hann og miðjumaðurinn Okay Yokuslu tók í sama strengt. „Ég er sammála þjálfaranum. Við horfum á það sem lið og við undirbúum okkur þannig.“