„Þetta var leikur þar sem kjánaleg mistök komu okkur í koll,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, eftir 3:1-tap fyrir Tyrklandi í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildar Evrópu í Izmir í kvöld.
„Í fyrri hálfleik náðum við að jafna metin eftir að hafa lent 1:0 undir mjög snemma. Venjulega lendum við ekki undir svona snemma en það getur stundum komið fyrir.
Við komum til baka og sýndum gott hugarfar þegar við jöfnuðum. Svo lendum við 2:1 undir og eftir það áttum við líka góðan kafla þar sem við hefðum getað jafnað metin þegar við spiluðum sem best.
Því miður vorum við ekki nægilega góðir varnarlega í dag eins og við erum vanalega. Við þurfum að halda áfram að vinna í því,“ bætti Åge við.
Mikill hávaði var í stuðningsmönnum Tyrkja í Izmir í kvöld en taldi Norðmaðurinn það ekki hafa haft áhrif á íslensku leikmennina.
„Nei, nei. Það var góð stemning hérna en ég held að það hafi ekki haft áhrif á leikmennina. Ég tel leikmennina hafa fundið fyrir þreytu í fótunum.
Við eigum alltaf í vandræðum með það í síðari leikjunum í landsleikjagluggum. Við þurfum að reyna að finna lausnir á því,“ sagði hann.
Spurður hvort taka mætti eitthvað jákvætt með sér úr leik kvöldsins sagði Åge að lokum:
„Já, algjörlega. Mórallinn var mjög góður og við höldum áfram að berjast.“