„Fyrstu 20 mínúturnar hjá mér alls ekki nógu góðar“

Guðlaugur Victor Pálsson í þann mund að jafna metin eftir …
Guðlaugur Victor Pálsson í þann mund að jafna metin eftir hornspyrnu Jóhanns Bergs Guðmundssonar. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Við gáfum þeim mark þar sem það var lélegt hjá mér að missa boltann á slæmum stað,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði Íslands, eftir 3:1-tap fyrir Tyrklandi í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildar Evrópu í fótbolta í Izmir í kvöld.

„Fyrstu 20 mínúturnar voru sérstaklega erfiðar en mér fannst við koma okkur ágætlega inn í þetta. Við jöfnum auðvitað úr frábæru horni og þá var þetta þannig séð í ágætu jafnvægi.

Þeir voru meira með boltann og við að verjast. Svo var þetta auðvitað högg þetta annað mark sem þeir negla í fjær, frábært mark hjá honum.

Það er eitthvað sem við þurfum að laga og gera betur, við vitum það alveg. Þetta var erfitt í dag og þeir auðvitað með frábært lið. Við eigum þá aftur núna í næsta mánuði þannig að það er gott, að eiga þá strax aftur,“ hélt Jóhann áfram.

Ekki nógu gott hjá mér og liðinu

Eftir að hafa misst boltann á slæmum stað í fyrsta marki Tyrklands átti hann góða hornspyrnu sem endaði með laglegu jöfnunarmarki Guðlaugs Victors Pálssonar.

„Ég er fyrstur að viðurkenna þegar ég er ekki nógu góður. Það er bara eins og það er.

Maður vonast til þess að komast aftur inn í leikinn og hjálpa liðinu að gera það. Ég gerði það en fyrstu 20 mínúturnar voru ekki alveg nógu góðar hjá mér og liðinu,“ sagði Jóhann hreinskilinn.

Ætlum að skora úr opnum leik næst

Íslenska liðið fékk nokkur ágætis færi til að jafna metin í stöðunni 2:1 en allt kom fyrir ekki.

„Já, algjörlega. Það voru nokkrar stórhættulegar fyrirgjafir og við hefðum auðveldlega getað jafnað þetta. En svona var þetta. Svo vorum við farnir að sækja ansi mikið þegar þeir skora þriðja markið,“ sagði hann.

Öll þrjú mörkin sem Ísland skoraði í yfirstandandi landsleikjaglugga komu með skalla eftir hornspyrnur.

„Við erum búnir að æfa þetta vel og erum með alvöru menn þarna sem vilja skora mörk. Við nýtum öll tækifæri sem gefast með hornspyrnum.

Í næsta glugga ætlum við að skora úr opnum leik, ekki bara alltaf eftir hornspyrnur,“ sagði Jóhann ákveðinn.

Margir að spila í Tyrklandi í fyrsta sinn

Hann lét ekki mikinn hávaða í Izmir í kvöld hafa of mikil áhrif á sig.

„Mér líður bara vel. Þetta var alvöru stemning og það er alltaf erfitt að spila í þessum aðstæðum.

Það voru margir að spila sinn fyrsta leik í Tyrklandi og það er auðvitað öðruvísi. Þetta var frábær leikur og erfiður en við gerum betur næst,“ sagði Jóhann um andrúmsloftið.

Hann kvaðst að lokum spenntur fyrir framhaldinu en Ísland mætir Tyrklandi og Wales á heimavelli í næsta landsleikjaglugga í næsta mánuði.

„Við þurfum að stefna á að ná í sex stig þar, það er ekkert annað í boði. Það eru tveir heimaleikir og vonandi sjáum við sem flesta á Laugardalsvellinum, fleiri en í síðasta leik.

Við gerum Laugardalsvöllinn að alvöru vígi og þá erum við í flottum málum,“ sagði Jóhann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert