Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var svekktur með 3:1-tapið fyrir Tyrklandi í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildar Evrópu í fótbolta kvöld en naut þess þó að spila í mikilli stemningu í Izmir.
„Það var auðvitað erfitt hvernig við byrjuðum leikinn, að lenda marki undir. Við gerðum vel í að komast aftur inn í leikinn og vera með 1:1 í hálfleik.
Síðan skora þeir frábært mark í stöðunni 2:1 og kannski lítið hægt að segja við því á erfiðum útivelli. Ég held að ef við hefðum náð í stig í dag hefðum við verið mjög sáttir,“ sagði Gylfi Þór í samtali við mbl.is eftir leikinn.
„Það var planið að vera þéttir, verjast vel og nýta okkur skyndisóknir og líka föst leikatriði. Þeir voru bara mjög góðir, það verður að viðurkennast.
Þeir voru betri í dag. Við verðum að vera sterkari á heimavelli núna í næsta mánuði og taka þá þar,“ hélt hann áfram.
Spurður hvernig honum hafi þótt að spila í miklum hávaða og látum í Tyrklandi sagði Gylfi Þór:
„Það var geggjað. Þetta er einn besti útivöllurinn að koma á, það er í Tyrklandi. Það voru geggjuð læti og góð stemning.
Því miður var völlurinn ekki stærri, það hefði verið gaman að vera með 40.000 - 50.000 manns en það er frábært að spila hérna.
Þetta voru geggjaðar aðstæður. Maður vill spila fyrir framan marga áhorfendur með mikil læti í góðri stemningu. Þetta eru kjöraðstæður að spila í.“
Nokkuð langt er um liðið síðan Gylfi Þór spilaði síðast í þetta mikilli stemningu.
„Ég var búinn að sakna þess. Stemningin fyrir leikinn og að hlusta á þjóðsönginn hjá þeim, að heyra alla 20.000 manns syngja hann í byrjun upphitunar.
Það heyrðist í þeim allan leikinn. Þetta var geggjuð stemning og gaman að upplifa þetta aftur,“ sagði hann.
Gylfi Þór byrjaði báða leikina í landsleikjaglugganum og kvaðst enn eiga eitthvað í land til þess að komast í sitt besta líkamlega form.
„Mér líður mjög vel. Ég var frekar slappur í fyrri leiknum þannig að það fór kannski ekki rosalega mikil orka í þann leik. Ég hafði ekki mikinn kraft til að hlaupa í honum en líður bara nokkuð vel.
Ég finn það að ég er ekki alveg kominn í toppstand og það er eitthvað sem ég get einbeitt mér að, að vinna í því næstu vikur,“ sagði hann.
Gylfi Þór er spenntur fyrir því að mæta Tyrklandi og Wales í næsta landsleikjaglugga þar sem báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.
„Það verður yndislegt að taka tvo leiki heima næst. Skemmtilegustu gluggarnir eru þegar þú ert með tvo heimaleiki.
Þá geturðu verið með allan undirbúninginn heima og nægan tíma til þess að skipuleggja liðið varnar- og sóknarlega,“ sagði hann.
Gegn Tyrklandi áætlar íslenska liðið að hefna fyrir tapið í kvöld.
„Algjörlega, það er planið. Við töluðum um það í klefanum strax eftir leik, að við þurfum að vinna heimaleikina,“ sagði Gylfi Þór að lokum í samtali við mbl.is.