„Þetta var ekki alveg nógu gott í dag,“ sagði Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir tap fyrir Tyrkjum, 3:1, í Þjóðadeildinni í Izmir í Tyrklandi.
„Mér leið vel í hálfleiknum í stöðunni 1:1. Kannski voru þetta sanngjörn úrslit. Við getum gert mikið betur,“ sagði hann og hélt áfram:
„Það er pirrandi að ná ekki að halda þessu í 2:1 lengur og þrýsta alveg á þá í lokin. Ég fann það á mig að jöfnunarmarkið var að koma þegar við fáum 3:1 í bakið. Þá var þetta orðið erfitt.“
Hákon virtist ekki geta gert mikið í mörkunum sem hann fékk á sig, en hann vill skoða þau aftur og meta. „Ég þarf að skoða þetta betur. Maður getur alltaf gert betur í mörkum sem maður fær á sig. Það er ekkert óverjandi.“
Hann er ánægður með svarið eftir að Tyrkir komust yfir strax í upphafi leiks.
„Þetta er ekki besta byrjunin en mér fannst við bregðast allt í lagi við. Við hefðum getað brotnað alveg og farið í einhverja skel. Við gerðum vel í að jafna með flottu marki hjá Gulla en það var skellur að fá allavega ekki stig úr þessu.“
Gríðarleg læti voru á vellinum í Izmir, eins og ávallt þegar Tyrkland spilar heimaleiki.
„Það voru læti, eins og við var að búast. Það er allt í lagi að spila í þessu. Þetta var sums staðar í Svíþjóð líka. Þetta heldur manni á tánum.
Ég hef spilað í meiri látum í Svíþjóð. Þar eru öðruvísi læti, blys og svona. Þessir áhorfendur létu samt vel í sér heyra,“ sagði Hákon.