Lést er bensínstöð sprakk í loft upp

Gürsel Aksel-völlurinn.
Gürsel Aksel-völlurinn. mbl.is/Jóhann Ingi

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir því tyrkneska í Þjóðadeildinni í Izmir í Tyrklandi klukkan 18.45 í kvöld.

Leikurinn fer fram á Gürsel Aksel-vellinum í Göztepe-hverfinu í Izmir. Göztepe leikur heimaleiki sína á vellinum en liðið er nýliði í efstu deild Tyrklands á leiktíðinni.

Völlurinn er nefndur í höfuðið á Gürsel Aksel sem lék allan ferilinn, á árunum 1959 til 1972 með Göztepe, alls 390 leiki í tyrknesku deildarkeppninni. Hann þjálfaði einnig liðið frá 1975 til 1976. Hann lést 1978, aðeins 41 árs, þegar hann stóð nærri bensínstöð sem sprakk í loft upp.

Völlurinn tekur tæplega 20.000 manns og var byggður árið 2020 og er því frekar nýr. Aldrei hafa fleiri en 18.228 mætt á knattspyrnuleik á vellinum, en sá fjöldi mætti á leik Göztepe og Galatasaray í tyrknesku úrvalsdeildinni.

Einu sinni áður hefur landsleikur verið spilaður á vellinum en 14.694 manns sáu Tyrkland vinna Litháen, 2:0, 14. júní 2022 í Þjóðadeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert