Ísland mátti þola tap gegn Tyrklandi, 3:1, í 4. riðli B-deildar í Þjóðadeild karla í fótbolta í Izmir í Tyrklandi í kvöld. Ísland er með þrjú stig eftir heimasigur á Svartfjallalandi í fyrsta leik, 2:0.
Tyrkland er með fjögur stig eftir markalaust jafntefli við Wales á útivelli í fyrsta leik. Wales er með fjögur stig eins og Tyrkland en Svartfjallaland er stigalaust á botninum.
Íslenska liðið byrjaði eins illa og hægt er því Kerem Aktürkoglu kom Tyrkjum yfir strax á 2. mínútu er hann lagði boltann í hornið innan teigs eftir að Jóhann Berg Guðmundsson missti boltann á hættulegum stað.
Tyrkneska liðið var mikið með boltann í kjölfarið og aðallega á vallarhelmingi íslenska liðsins. Það gekk hins vegar illa að skapa góð færi gegn þéttri íslenskri vörn. Aktürkoglu komst þó nálægt því að skora aftur á 25. mínútu er hann lagði boltann fram hjá rétt utan teigs.
Næstu mínútur þróuðust svipað og var það gegn gangi leiksins þegar Guðlaugur Victor Pálsson skallaði boltann af krafti í netið úr teignum eftir hornspyrnu Jóhanns Bergs Guðmundssonar á 37. mínútu.
Eftir það var lítið um færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Umut Nayir komst næst því að skora er hann reyndi hjólhestaspyrnu innan teigs en boltinn fór nokkuð yfir. Var staðan í hálfleik því 1:1.
Það tók Tyrki sjö mínútur að komast yfir á nýjan leik í seinni hálfleik er Aktürkoglu skoraði sitt annað mark með glæsilegu skoti utan teigs.
Varamaðurinn Arnór Ingvi Traustason komst nálægt því að jafna á 64. mínútu er hann skaut rétt fram hjá utan teigs.
Tyrkir voru nær því að skora næstu mínútur. Fyrst átti Aktürkoglu fast skot utan teigs en Hákon Rafn gerði mjög vel í að verja. Umut Nayir fékk svo dauðafæri á 73. mínútu til að gera út um leikinn en hann skaut fram hjá einn gegn Hákoni úr markteignum.
Aktürkoglu var ógnandi allan leikinn og hann gerði út um hann á 88. mínútu er hann slapp einn í gegn og vippaði yfir Hákon í markinu. Reyndist það síðasta mark leiksins og Ísland fer stigalaust heim frá Tyrklandi.