UEFA vill ekki að Víkingur tjái sig

Víkingsvöllur stenst ekki kröfur UEFA um heimavelli í Evrópukeppnum.
Víkingsvöllur stenst ekki kröfur UEFA um heimavelli í Evrópukeppnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur úr Reykjavík leitar nú allra leiða til þess að karlalið félagsins í knattspyrnu fái að spila heimaleiki sína í Sambandsdeild Evrópu á Íslandi.

RÚV greinir frá því að Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hafi veitt Víkingi frest til miðnættis í kvöld til að tilkynna hvort liðið muni spila á Íslandi eða í Færeyjum í haust og vetur en að hann gæti verið framlengdur til morguns.

UEFA hefur þá biðlað til Víkinga um að tjá sig ekki um málið við fjölmiðla.

Vonast eftir farsælli lausn

„Það er verið að leita allra leiða til að Víkingur geti spilað heimaleiki sína á Íslandi. Það hafa verið haldnir fundir í dag og verða áfram í kvöld.

Víkingur fær daginn í dag til að fara yfir stöðuna og það gæti dregist fram á morgun að fá niðurstöðu.

Það eru margir óvissuþættir sem þarf að fara yfir og frá öllum hliðum. Við vonumst eftir að það finnist farsæl lausn,“ sagði Jörundur Áki Sveinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við RÚV.

Laga þarf flóðlýsingu á Kópavogsvelli

Til stendur að Víkingur spili þrjá heimaleiki í Sambandsdeildinni, einn 24. október, annan 7. nóvember og þann þriðja 12. desember.

Víkingsvöllur stenst ekki kröfur UEFA um heimavelli í Evrópukeppnum og ekki stendur til að reyna að spila á Laugardalsvelli.

Kópavogsvöllur kemur til greina en þá þarf að laga flóðlýsingu á vellinum, sem er hægara sagt en gert vegna aðkomu fjölda aðila eigi að ráðast í þær framkvæmdir.

Geti Víkingur ekki spilað á Íslandi hefur félagið fengið vilyrði um að spila á Þórsvelli, þjóðarleikvangi Færeyinga, sem uppfyllir allar kröfur UEFA um heimavelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert