Með hausverk í sjö tíma eftir leik

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta útileik í fjögur ár …
Gylfi Þór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta útileik í fjögur ár í Izmir. Ljósmynd/Alex Nicodim

Þessi orð eru skrifuð á flugvellinum í Edinborg þar sem ofanritaður millilendir í nokkra klukkutíma á leiðinni heim til Íslands frá Izmir í Tyrklandi.

Ég varð strax mjög spenntur yfir þeim fréttum að ég væri á leiðinni til Tyrklands að vinna í kringum leik Íslands og Tyrklands í Þjóðadeild karla í fótbolta. Maður hefur margoft heyrt að stemningin á fótboltaleikjum þar í landi sé engu lík.

Hún olli engum vonbrigðum. Þvílík upplifun að fá að vera erlendur blaðamaður í kringum heimaleik Tyrklands í fótbolta. Algjörlega einstakt.

Leikurinn í Izmir reyndist erfiður.
Leikurinn í Izmir reyndist erfiður. Ljósmynd/Alex Nicodim

Vinnan í kringum leikinn byrjaði á blaðamannafundum Íslands og Tyrklands degi fyrir leik. Þar gekk bölvanlega að finna fundarherbergið. Fáir í Izmir tala ensku en um leið og ég lærði að segja „basın toplantısı“ þökk sé veraldarvefnum færðist ég nær og fann að lokum vel falið herbergi eftir ferð niður í bílakjallara.

Móttökurnar þar voru ekki sérlega vinalegar. Ég rakst t.d. óvart í einn tyrkneskan kollega minn og hann horfði á mig eins og hann ætlaði mér eitthvað mjög illt, svo ég forðaði mér sem fyrst.

Á leikdegi ákváðum við Guðmundur kollegi minn hjá fótbolta.net að ganga á völlinn, sem tók um 90 mínútur. Fjólublár mengaður sjór, fallegt útsýni og nóg af pálmatrjám.

Byrjunarlið Íslands í Izmir.
Byrjunarlið Íslands í Izmir. Ljósmynd/Alex Nicodim

Þegar á völlinn var komið tók við ákveðin ringulreið. Í fyrsta lagi fengum við ekki að fara nálægt vellinum fyrr en við sýndum blaðamannapassana okkar, sem við fengum sem betur fer degi fyrr. Öryggisgæslan var ekki ósvipuð þeirri sem var á leiðtogafundinum í Hörpu, sennilega aðeins meiri.

Þegar við vorum komnir að vellinum vissi enginn neitt og enginn skildi okkur. Sem betur fer höfðum við lært orðið „muhabir“ deginum áður og það kom okkur loksins á leiðarenda.

Þá tók við leikurinn og það eru engin lýsingarorð nægilega sterk til að lýsa látunum sem tyrkneskir stuðningsmenn búa til, þrátt fyrir að völlurinn í Izmir rúmi „bara“ um 19.000 áhorfendur.

Guðlaugur Victor Pálsson skorar, 1:1.
Guðlaugur Victor Pálsson skorar, 1:1. Ljósmynd/Alex Nicodim

Ísland hefur spilað útileiki við Tyrkland fyrir framan 40.000 stuðningsmenn og það er mesta furða að leikmenn og aðrir séu enn þá með eðlilega heyrn eftir þá upplifun. Ég var með höfuðverk í um sjö tíma eftir leik.

Eftir leik hófst leit að svæðinu þar sem viðtöl fóru fram og tækifæri fyrir mig að taka púlsinn á svekktum leikmönnum Íslands. Tyrkirnir höfðu lítinn áhuga á að aðstoða mig og voru dónalegir þegar ég bað þá fallega um að benda mér á hvert ég ætti að fara. Það var eins og þetta væri persónulegt og ég væri ekki sérlega velkominn, þrátt fyrir sigur tyrkneska liðsins.

Því miður fór leikurinn ekki eins og við Íslendingar vildum, en það er ekkert stórslys að tapa á móti þessu sterka tyrkneska liði á útivelli, Tyrkir fóru í átta liða úrslit á EM. Örlög Íslands í Þjóðadeildinni eru enn í höndum íslenska liðsins. Vonandi gengur betur næst að þagga niður í þessari stórkostlegu tyrknesku stemningu og fúlum tyrkneskum kollegum mínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert