Hefði viljað sjá liðið keyra meira á þetta

Åge Hareide og Hermann Hreiðarsson.
Åge Hareide og Hermann Hreiðarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

​Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vann sinn fyrsta leik í riðlakeppni Þjóðadeildar UEFA síðastliðinn föstudag gegn Svartfjallalandi í 4. riðli B-deildar keppninnar á Laugardalsvelli.

Leiknum lauk með nokkuð þægilegum sigri Íslands, 2:0, þar sem mörkin komu bæði eftir hornspyrnur sitt í hvorum hálfleiknum. Liðið mætti svo Tyrklandi í Izmir á mánudaginn þar sem Tyrkir fögnuðu nokkuð öruggum sigri, 3:1.

„Ég myndi segja að stigasöfnunin í þessum landsleikjaglugga hafi verið mjög ásættanleg,“ sagði Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi fyrirliði íslenska karlalandsliðsins og núverandi þjálfari toppliðs ÍBV í 1. deild karla, í samtali við Morgunblaðið þegar hann ræddi frammistöðu íslenska liðsins í leikjunum tveimur.

Hefðum mátt keyra á þá

Er eitthvað sem íslenska liðið hefði getað gert betur í Izmir?

„Tyrkirnir eru auðvitað ógnarsterkir á sínum heimavelli og það þarf að bera virðingu fyrir því. Þeir áttu góðan leik og voru einfaldlega betri aðilinn. Við getum klárlega unnið alla á deginum okkar og sex stig úr þessum glugga hefði verið frábært en svona er fótboltinn. Mér fannst við koma okkur í góðar stöður gegn Tyrkjunum, sérstaklega í seinni hálfleik, en það vantaði meiri greddu í strákana. Við áttum nokkrar góðar fyrirgjafir inn á teiginn en það vantaði upp á að menn tækju sénsinn og kláruðu hlaupin sín.

Það er ýmislegt sem hefði mátt betur fara, eins og alltaf. Mér fannst sóknarleikurinn úti í Tyrklandi fara mjög vaxandi eftir því sem leið á leikinn en sjálfur hefði ég viljað sjá liðið keyra meira á þetta. Ég hefði viljað sjá okkur keyra upp hraðann, þegar við unnum boltann, sækja hraðar á þá og klára sóknirnar okkar fyrr. Við erum með mjög öfluga leikmenn með mikla hlaupagetu og mér fannst við hægja fullmikið á leiknum oft og tíðum þegar tækifærin voru til staðar til þess að sækja hratt á Tyrkina og hreinlega refsa þeim þegar þeir voru út úr stöðum.“

Viðtalið við Hermann í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert