KR og Víkingur áttist við í frestuðum leik sem tilheyrir 20. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Meistaravöllum í kvöld og lauk leiknum með öruggum sigri Víkinga 3:0.
Eftir leikinn eru Víkingar á toppi deildarinnar með 46 stig líkt og Breiðablik sem er í öðru sæti en Víkingar eru á toppnum á betri markatölu. KR er í 9 sæti deildarinnar með 21 stig, þremur stigum frá fallsæti.
Fyrri hálfleikur leiksins var algjör einstefna og komust leikmenn KR vart yfir miðju. Fyrsta mark leiksins kom á 11. mínútu leiksins þegar Gísli Gottskálk Þórðarson skoraði fallegt mark eftir sendingu frá Ara Sigurpálssyni.
Ari var síðan sjálfur á ferðinni á 16. mínútu leiksins þegar fast skot hans var varið í horn af Guy Smit í marki KR.
Á 22. mínútu leiksins tvöfölduðu Víkingar forystuna þegar Gísli Gottskálk og Valdimar Þór Ingimundarson áttu frábært samspil inni í vítateig KR sem endaði með því að Valdimar skoraði fallegt mark í maður á mann einvígi gegn Guy Smit. Staðan 2:0 fyrir Víkinga.
KR-ingar reyndu að rétta úr kútnum og voru hársbreidd frá því að minnka muninn á 29. mínútu þegar Benoný Breki Andrésson komst einn gegn Ingvari Jónssyni í marki Víkinga en Ingvar varði vel í horn.
Þegar tæplega 37. mínútu voru liðnar af leiknum fengu Víkingar vítaspyrnu. Alex Þór Hauksson átti slaka sendingu í öftustu varnarlínu á Theodór Elmar Bjarnason. Inn í sendinguna komst Valdimar Þór og var Theodór of seinn í boltann og braut á Valdimar innan teigs. Úr vítaspyrnunni skoraði Danijel Dejan Djuric af miklu öryggi.
Staðan í hálfleik 3:0 fyrir Víkinga sem spiluðu algjöran einstefnuleik í fyrri hálfleik.
KR-ingar gerðu breytingu í hálfleik þegara Benoný Breki Andrésson fór af velli og inná í hans stað kom Atli Sigurjónsson.
Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað og var meira jafnræði á með liðunum. Á 54. mínútu fékk Aron Sigurðarson gult spjald fyrir leikaraskap eftir að hafa fallið inni í teig Víkinga. Hárrétt ákvörðun hjá Elíasi Inga Árnasyni dómara.
Óskar Örn Hauksson kom inn á í liði Víkinga á 63. mínútu leiksins gegn sínum gömlu félögum. Á 70. mínútu leiksins komst hann í frábært færi en skot hans fór í hliðarnetið.
Eins og fyrr segir var seinni hálfleikurnn ansi daufur hjá báðum liðum en á 88 mínútu leiksins fékk Ástbjörn Þórðarson sannkallað dauðafæri þegar hann fékk boltann beint fyrir framan mark Víkinga innan teigs en skot hans fór af varnarmanni og yfir markið.
Fleira markvert gerðist ekki í seinni hálfleik og lauk leiknum með öruggum sigri Víkinga 3:0.