Óskar Örn Hauksson leikmaður Víkinga og elsti og leikjahæsti leikmaður Bestu deildarinnar, átti fínan leik þegar hann kom inn á sem varamaður gegn sínum gömlu félögum í KR á Meistaravöllum í kvöld.
Víkingar unnu 3:0 og það lá því beinast við að ná tali af Óskari og spyrja hann út í leikinn og tilfinninguna við að mæta á sinn gamla heimavöll en hann er bæði leikja- og markahæstur í sögu KR.
Ertu ánægður með sigurinn og fannst þér hann sanngjarn?
„Já ég er mjög ánægður og sigurinn var sanngjarn. Við hefðum getað potað inn fjórða markinu en þetta var virkilega öflugur sigur."
Í fyrri hálfleik má segja að þið hafið yfirspilað lið KR. Var spilamennska Víkinga í takt við það sem var planað fyrirfram?
„Já við spiluðum okkar bolta en við vorum að mæta liði sem er í krísu. Það er bara þannig. Ég þekki það bara sjálfur. En á sama tíma vilja þeir koma hérna og mæta okkur af fullum krafti en mér fannst við bara hafa yfirhöndina í þessum leik frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu."
Hvernig var tilfinningin að spila hér á Meistaravöllum gegn þínu gamla liði?
„Það voru alveg tilfinningar verð ég að segja og alveg skrýtið. Ég hef varla komið hérna síðan ég labbaði út með dótið mitt fyrir tveimur árum síðan þannig að ég svo sem hef ekki komið oft hingað en það var skrýtið að mæta hérna og spila með öðru liði."
Næsti leikur hjá ykkur er gegn Fylki. Víkingar eru komnir aftur á toppinn ásamt Breiðabliki. Það er stutt í næsta leik sem er á mánudag. Hvernig undirbúa Víkingar sig fyrir þann leik?
„Það vilja öll lið vinna Víkinga, ríkjandi meistara. Við þurfum bara gíra okkur upp í þann leik og mæta í Árbæinn til að vinna. Nú þarf bara að komast í snögga endurheimt því það er svo stutt í næsta leik. Við þurfum að halda fókus í öllum leikjum núna og það má ekki missa einbeitingu því það er hörku barátta framundan og við getum hvergi gefið eftir," sagði Óskar í samtali við mbl.is.