Fram og FH gerðu jafntefli í sex marka leik, 3:3, í lokaumferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu karla fyrir tvískiptingu á Framvelli í Úlfarsárdal í dag.
Fram fór upp fyrir KA með sigrinum og í sjöunda sæti með 27 stig og leikur í neðri hluta deildarinnar en FH er dottið niður í sjötta sæti úr fjórða sæti með með 33 stig og mun leika í efri hlutanum.
ÍA og Stjarnan komust bæði yfir FH en þau eru með 34 stig.
Fyrri leiknum í Kaplakrika lauk einnig með 3:3 jafntefli.
Fyrri hálfleikurinn fór fjörlega af stað þegar Djenairo Daniels skoraði eftir hornspyrnu frá Fred. Restin af fyrri hálfleiknum var róleg, mikið um stopp vegna meiðsla en Björn Daníel Sverrisson og Daniels markaskorari Fram þurftu að yfirgefa völlinn vegna höfuðmeiðsla.
Uppbótartíminn í fyrri hálfleiknum var sex mínútur og nýttu FH-ingar þær gríðarlega vel og skoruðu tvö mörk.
Fyrst var það Kristján Flóki Finnbogason sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir FH í sumar eftir frábæran undirbúning frá Bjarna Guðjóni Brynjólfsyni en það var svo Kjartan Kári Halldórsson sem skoraði beint úr aukaspyrnu en boltinn hafði viðkomu í Guðmundi Magnússyni og Stefán Þór Hannesson í marki Fram kom engum vörnum við. 2:1 fyrir FH í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað en kom jöfnunarmark Framara á 68. mínútu. Eftir fyrirgjöf Haralds Einars Ásgrímssonar frá vinstri sló Daði Freyr Arnarsson markvörður FH boltann út í vítateig og þar mætti Alex Freyr Elísson og jafnaði leikinn með föstu skoti af stuttu færi.
FH-ingar fengu vítaspyrnu á 77. mínútu þegar brotið var á Sigurði Bjarti Hallssyni og var það Kjartan Kári Halldórsson sem skoraði úr henni nokkuð örugglega.
Á lokamínútu leiksins fengu Framarar svo vítaspyrnu þegar brotið var á Brynjari Gauta Guðjónssyni innan vítateigs. Alex Freyr fór á vítapunktinn og skoraði framhjá Daða Frey í markinu, sem var í boltanum.