Stjarnan og Vestri áttust við í 22. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í dag og lauk leiknum með sigri Stjörnunnar 1:0. Var þetta síðasti leikur liðanna áður en deildin skiptist í efri og neðri hluta.
Leikurinn í dag fór vel af stað og voru það gestirnir úr Vestra sem byrjuðu leikinn mun betur. Benedikt Waren byrjaði strax á annari mínutu á því að skjóta boltanum í þverslá. Leikmenn Vestra sóttu áfram fyrstu mínúturnar og stemmdi allt í það að fyrsta mark leiksins yrði gestanna.
Það tókst þó ekki þrátt fyrir tvær skyndisóknir í röð þar sem Silas Songani komst í fyrra skipti einn á móti Árna Snæ Ólafssyni í marki Stjörnunnar sem lokaði glæsilega á sóknarmanninn og varði frá honum.
Eftir þetta fóru leikmenn Stjörnunnar að vinna sig hægt og rólega inn í leikinn og byrjuðu að stýra honum. Þó svo að Stjörnumenn hafi ekki fengið nein afgerandi færi þá láu þeir þungt á vörn Vestra og mátti glögglega sjá að Davíð Smára Lamude var ekki skemmt á hliðarlínunni.
Besta færi Stjörnunnar í fyrri hálfleik kom þegar Örvar Eggertsson keyrði upp hægri kantinn og inn að teignum, gaf boltann á Hilmar Árna Halldórsson sem skaut ömurlegu skoti að marki Vestra. Skotið var auðveldlega varið af William Eskelinen.
Staðan í hálfleik 0:0.
Stjörnumenn byrjuðu seinni hálfleikinn með látum. Á 49. mínútu átti Guðmundur Baldvin Nökkvason lúmskt skot utan af velli sem endaði í stönginni. Nokkru sekúndum síðar leitaði boltinn inn í teig þar sem Hilmar Árni var mættur og skaut föstu skoti í þverslánna.
Eftir þetta róaðist leikurinn mikið og skiptust liðin á að sækja, án þess þó að gera atlögur að marki andstæðingsins.
Markverður hlutur gerðist ekki í leiknum fyrr en á 88. mínútu þegar Stjörnumenn fengu réttilega dæmda vítaspyrnu. Adolf Daði Birgisson setur boltann yfir Eskelinen sem braut á Adolf Daða og víti dæmt. Úr vítinu skoraði síðan Emil Atlason og staðan 1:0 fyrir Stjörnuna.
Voru þetta lokatölur leiksins, 1:0 fyrir Stjörnuna sem leikur næst í efri hluta deildarinnar á meðan Vestri berst fyrir lífi sínu í deildinni í neðri hlutanum.