Lúkas með tvennu í sigri Vals á KR

Valsmenn fagna fyrra marki Lúkasar Loga Heimissonar í kvöld.
Valsmenn fagna fyrra marki Lúkasar Loga Heimissonar í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Valur hafði betur gegn KR, 4:1, í Bestu deild karla í fótbolta á heimavelli sínum á Hlíðarenda í kvöld. Með sigrinum styrkti Valur stöðu sína í þriðja sæti en liðið er með 38 stig. KR er í níunda sæti með 21 stig. Umferðin var sú síðasta fyrir skiptingu deildarinnar.

Valsmenn byrjuðu betur og Lúkas Logi Heimisson kom heimamönnum yfir á 14. mínútu með góðu skoti í bláhornið eftir hælsendingu frá Jónatan Inga Jónssyni.

Átta mínútum síðar voru þeir félagar aftur á ferðinni. Jónatan átti þá flottan sprett og sendi aðra hælsendingu á Lúkas sem skoraði sitt annað mark og annað mark Vals með föstu skoti utan teigs í hornið.

Valsmenn voru líklegri til að bæta við en KR að minnka muninn. Albin Skoglund átti hættulegt skot á 24. mínútu en Guy Smit í marki KR varði vel. Lúkas Logi var svo nálægt þrennunni á 33. mínútu en aftur varði Smit.

Hollendingurinn hafði nóg að gera og hann varði glæsilega frá Patrick Pedersen á 44. mínútu er Daninn átti glæsilegt skot af 30 metrum en Smit varði vel. Var staðan því 2:0 fyrir Val í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði rólega en KR-ingar komu sér aftur inn í leikinn með marki á 60. mínútu. Aron Sigurðarson slapp þá inn í teig eftir sendingu frá Benoný Breka Andréssyni og skoraði framhjá Ögmundi sem skildi nærhornið eftir galopið.

KR-ingar voru mun líklegri eftir markið og pressuðu Valsmenn stíft næstu mínútur. Það kom því gegn gangi leiksins þegar Patrick Pedersen kom Val í 3:1 á 75. mínútu. Tveir KR-ingar hlupu þá saman og Daninn slapp í gegn og skoraði fjórða mark leiksins.

Tryggvi Hrafn Haraldsson gerði svo endanlega út um vonir KR-inga með fjórða marki Vals í uppbótartíma er hann slapp í gegn eftir sendingu frá Orra Hrafni Kjartanssyni en þeir komu báðir inn á sem varamenn. Reyndist það síðasta mark leiksins.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 4:1 KR opna loka
90. mín. Patrick Pedersen (Valur) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert