„Þetta er mjög spennandi. Þetta er skemmtilegur leikur að spila og skemmtilegur fyrir stuðningsmennina. Þetta er stór leikur fyrir félagið,“ sagði Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings úr Reykjavík, fyrir bikarúrslitaleik liðsins gegn KA í knattspyrnu á morgun.
Liðin mætast nú í bikarúrslitum annað árið í röð auk þess sem Víkingur tekur þátt í sínum fimmta úrslitaleik í röð.
„Þetta er líka tækifæri fyrir KA til þess að bjarga tímabili sínu þannig að þeir munu leggja allt í sölurnar,“ sagði Nikolaj í samtali við mbl.is á kynningarfundi fyrir úrslitaleikinn í höfuðstöðvum KSÍ í gær.
Víkingur hefur orðið bikarmeistari fjögur skipti í röð, árin 2019, 2021, 2022 og 2023, en keppni var hætt árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins þegar Víkingar voru dottnir úr keppni.
Hvernig hefur Víkingur farið að því að komast fimm skipti í röð í bikarúrslit?
„Við erum bara með gott lið sem hefur drifkraft þegar kemur að því að sigra. Við erum með þjálfara sem hefur gert mjög vel með okkur auk allra þeirra sem hafa unnið með honum.
Okkur hefur tekist að halda hungrinu við í liðinu og spennunni sem fylgir því að vinna. Þannig bætum við okkur líka, með þessu sigurhungri,“ útskýrði hann.
Nikolaj finnst ekki sem það fylgi því aukin pressa að hafa komist þetta oft í bikarúrslit undanfarin ár.
„Nei, ég held ekki. Við áttum okkur auðvitað allir á mikilvægi leiksins og því erum við aðeins spenntari fyrir honum en öðrum leikjum. Við spilum úrslitaleikinn á laugardag og spilum svo fimm úrslitaleiki í deildinni.
Svo förum við í Evrópukeppni. Ef við vinnum á laugard fær liðið byr undir báða vængi og aukið sjálfstraust fyrir næstu leiki sem eru einnig mjög mikilvægir fyrir okkur,“ sagði danski sóknarmaðurinn.
Nikolaj býst við hörkuleik á morgun.
„Ég held að þetta verði góður leikur með mikið af návígjum. Þetta eru tvö lið sem hafa verið að spila vel. Við höfum spilað vel að undanförnu og verðum að taka það með okkur í næsta leik.
KA byrjaði illa en spilar alltaf betur og betur. Þetta verður mjög erfitt en einnig spennandi og góður leikur áhorfs fyrir fólk,“ sagði hann.
Nikolaj fór af velli í fyrri hálfleik í 6:0-sigri á Fylki í Bestu deildinni á mánudagskvöld.
„Ég fann aðeins til í lærinu og hef ekki náð að æfa síðan. Við ætlum að sjá hvernig ég verð núna á æfingu og næsta dag, hvort það sé í lagi með mig eður ei.
Það var meira til öryggis að ég fór af velli í síðasta leik, að þvinga mig ekki áfram því við vorum þremur mörkum yfir,“ sagði hann og kvaðst bjartsýnn á að geta spilað á morgun.
„Já, ég held það. Mér líður vel hvað endurheimt og annað varðar þannig að ég held að ég muni spila. Vonandi.“