Útilokar ekki að leggja skóna á hilluna

Mark McAusland í fyrri leik Keflavíkur og ÍR.
Mark McAusland í fyrri leik Keflavíkur og ÍR. Eyþór Árnason

Hinn skoski Marc McAusland fyrirliði ÍR spjallaði við mbl.is eftir leik sigurleik liðsins gegn Keflavík í umspili um sæti í úrslitaleik um sæti í efstu deild að ári. Þrátt fyrir 3:2 útisigur þá tapaðist einvígið samanlagt 6:4 og eru Keflvíkingar því komnir í úrslitaleikinn og mæta þar annað hvort Aftureldingu eða Fjölni.

ÍR-ingar geta þó borið höfuðið hátt því þeir voru virkilega nálægt því að gera enn meira út um leikinn í fyrri hálfleik en lengra komust þeir ekki.

Liðið komst upp úr annarri deild í fyrra, náði glæsilegum árangri á tímabilinu og samkvæmt mínum upplýsingum er einn leikmaður launaskrá og því ekki miklar fjárhæðir hjá liðinu miðað við önnur lið.

McAusland var með blendnar tilfinningar eftir leik. Hann var hundfúll með að tapa en þrátt fyrir allt stoltur af liðinu enda mikið að ungum leikmönnum.

„Ég er svekktur með að tapa einvíginu en virkilega stoltur af strákunum, hvernig við börðumst allan tímann. Þetta tapaðist á litlu hlutunum, ef og hefði. Ef hlutirnir hefðu fallið aðeins meira með okkur þá væri ég hérna standandi með þér að tala um úrslitaleikinn sem við ætluðum okkur að spila."

Eftir að hafa tapað fyrri leiknum á heimavelli 4:1 þá hafði ÍR liðið í raun engu að tapa og fóru til Keflavíkur í miklum sóknarham. Liðið var mjög beitt í fyrri hálfleik og uppskar þrjú mörk og staðan þá ansi vænleg.

„Við höfðum engu að tapa, við lögðum upp með að ná marki inn sem fyrst og það gerðist og við náðum þriggja marka forystu og þá höfðum við virkilega mikla trú á að við myndum sigra Keflavík í dag. Það var samt mjög óheppilegt að fá á sig þetta mark í lok fyrri hálfleiks, algjör heppni hjá þeim en svona er þetta. Þetta var smá högg í magann.

Okkar markmið var að vera tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik og við náðum því. En Keflavík náði svo betri tökum á leiknum í síðari hálfleik og það gerði okkur erfiðara fyrir. En í rauninni þá gerðum við vissulega okkur sjálfum mjög erfitt fyrir með því að tapa stórt fyrri leiknum, það er okkur sjálfum að kenna og þess vegna varð þetta meiri brekka í dag. En ég er virkilega stoltur af strákunum, þeir gáfu allt í þetta".

Marc McAusland er 36 ára og einhverjar vangaveltur hafa verið um hvort að hann ætli sér að leggja skóna hilluna eftir fjölmörg farsæl ár í boltanum, bæði á Íslandi og í Skotlandi. Hann er fjölskyldufaðir sem býr í Keflavík með íslenskri unnustu og una þau hag sínum vel í Keflavík.

Var þetta síðasti leikur Marc á ferlinum?

Ég hef ekki tekið ákvörðun, ég er með samning út árið 2025 við ÍR. Mig langar til að halda áfram en svo er þetta líka fínn tímapunktur til að ljúka ferlinum. Mér líður vel andlega og líkamlega, jújú ég er aðeins þyngri en þegar ég var í mínu allra besta formi en það er vissulega erfiðara að missa þyngd þegar maður verður eldri," sagði Marc og glotti.

„Ég mun skoða hvernig framtíðin liggur á næstu mánuðum," sagði Marc McAusland að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert