Hetja Víkinga í bann

Tarik Ibrahimagic faðmar Helga Guðjónsson.
Tarik Ibrahimagic faðmar Helga Guðjónsson. Ólafur Árdal

Daninn Tarik Ibrahimagic, leikmaður karlaliðs Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, verður í banni gegn Stjörnunni í næsta leik liðsins í Bestu deildinni. 

Tarik, sem skoraði jöfnunar- og sigurmark Víkings gegn Val síðasta sunnudagskvöld, fær bannið vegna sjö gulra spjalda og missir af heimleik liðsins gegn Garðbæingum. 

Varnarmaðurinn Sigurður Gunnar Jónsson verður ekki með Stjörnunni vegna fjögurra gulra spjalda. Báðir voru þeir úrskurðaðir í bann á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ. 

Valsmennirnir Lúkas Logi Heimisson og Orri Sigurður Ómarsson verða ekki með Val gegn Breiðabliki vegna uppsafnaðra spjalda. 

Þá verða Grétar Snær Gunnarsson og Kristján Flóki Finnbogason í banni þegar að FH heimsækir ÍA. 

Fyrirliði Fylkis í bann

Í neðri hlutanum verður KR-ingurinn Finnur Tómas Pálmason í banni gegn KA fyrir norðan en KA-maðurinn Dagur Ingi Valsson verður ekki með heldur vegna rauðs spjalds í síðasta leik. 

Ragnar Bragi Sveinsson fyrirliði Fylkis er kominn með sjö gul spjöld og verður í banni gegn HK í Kórnum. Atli Hrafn Andrason verður ekki með HK-ingum en hann tekur út seinni leikinn af tveggja leikja banni sínu. 





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert