„Mér finnst mjög gott að vera kominn hingað. Ég fíla kuldann,“ sagði Logi Tómasson, vinstri bakvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu.
Ísland á fyrir höndum tvo heimaleiki í B-deild Þjóðadeildar Evrópu næstu daga. Fyrst kemur Wales í heimsókn á föstudagskvöld og svo tekur íslenska liðið á móti því tyrkneska á mánudagskvöld.
„Við erum búnir að taka 2-3 fundi, erum búnir að fara vel yfir þá og munum gera það áfram. Það eru tveir dagar í leik og við munum halda því áfram,“ sagði Logi í samtali við mbl.is á Hilton Reykjavík Nordica-hótelinu í dag.
Hverju má búast við af velska liðinu?
„Það má búast við beinskeyttum fótbolta. Þeir eru með fljóta kantmenn og sterka framherja sem eru góðir í loftinu. Þetta verður svolítið langir boltar og mikil barátta held ég,“ sagði hann.
Spurður hvort hann teldi íslenska liðið vera sterkara en það velska sagði Logi:
„Ég veit það ekki, ég held að þetta verði 50/50 leikur. Við erum með sterkt lið og vonandi vinnum við þá.“
Hann var í byrjunarliði Íslands í 2:0-sigri á Svartfjallalandi í síðasta mánuði en kom svo ekkert við sögu í næsta leik gegn Tyrklandi. Aðspurður kvaðst Logi vitanlega svekktur með það.
„Já, auðvitað vill maður spila og ég átti fínan leik á móti Svartfjallalandi. Auðvitað er maður svekktur yfir því að fá ekki að spila en maður hefur enga stjórn á því. Maður bara stendur sig þegar maður fær tækifærið.“
Hann hefur verið lykilmaður hjá Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili.
„Tímabilið hefur verið frekar gott. Ég hef átt mikið af góðum leikjum. Liðið hefur verið svona upp og niður en að mestu leyti hefur þetta verið frekar gott,“ sagði Logi.
Í sumar var hann langt kominn með að semja við belgíska félagið Kortrijk, þar sem Freyr Alexandersson er þjálfari og Patrik S. Gunnarsson er markvörður.
„Þetta tók svolítið langan tíma og ég var á leiðinni þangað en svo fór það ekki í gegn. Það er náttúrlega smá erfitt fyrir mann en svo kemur nýr dagur og nýr leikur hjá liðinu sem maður er í þannig að maður heldur bara áfram,“ sagði Logi.
Hann er sem kunnugt er þekktur tónlistarmaður hvers listamannsnafn er Luigi. Spurður hvernig gengi með tónlistarferilinn nú þegar Logi er búsettur í Noregi sagði hann:
„Ég er bara eitthvað að leika mér. Ég er búinn að vera að gefa út tónlist í einhvern tíma og það má búast við einhverju meira á leiðinni.“