„Hann átti að þruma boltanum til Færeyja!“

Åge Hareide var niðurlútur eftir landsleikinn í kvöld.
Åge Hareide var niðurlútur eftir landsleikinn í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Við gerðum of mörg mistök,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi eftir 4:2-tap Íslands gegn Tyrklandi í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildar karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld.

Íslenska liðið komst í 1:0 í leiknum og jafnaði metin í 2:2 á 83. mínútu en Tyrkir skoruðu tvö mörk á lokamínútunum eftir vandræðagang í vörn íslenska liðsins og fögnuðu sigri.

Hefðu þurft að vera skynsamari

„Þú vinnur ekki fótboltaleiki ef þú gerir jafn mikið af mistökum og við gerðum í kvöld. Við gerðum virkilega vel í að koma okkur aftur inn í leikinn og jafna metin í 2:2. Við hefðum þurft að vera skynsamari á lokamínútunum og stýra leiknum betur en við gerðum það ekki og því fór sem fór. Við erum að skora tvö mörk í leik og það á að duga til þess að vinna leiki í alþjóðlegum fótbolta.

 Við erum að fá allt of mikið af mörkum á okkur og við verðum að ná upp stöðugleika í varnarleiknum. Það er verkefni sem við erum að vinna í en það er ekki alltaf einfalt. Við gerum einstaklingsmistök, einstaklingsmistök sem kosta okkur dýrt. Ég hef vissulega verið að velja leikmenn í liðið sem eru ekki að spila reglulega með sínum félagsliðum og kannski er það eitthvað sem ég þarf að skoða hjá mér,“ sagði Hareide.

Mistök sem kosta mark

Hákon Rafn Valdimarsson gerði sig sekan um mjög slæm mistök í marki íslenska liðsins þegar Tyrkir komust yfir, 3:2, á 88. mínútu.

„Það er oftast þannig að þegar markverðir gera mistök þá kostar það mark. Ef þetta hefði átt sér stað út á velli hefði dómarinn líklegast dæmt aukaspyrnu. Mér fannst hann fara í boltann en tækla hann líka í leiðinni og í mínum bókum er það aukaspyrna. Þetta var á sama tíma klaufalegt mark að fá á sig. Hann átti að þruma boltanum til Færeyja!“ bætti Hareide við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka