Rúnar Kristinsson náði áfanga á þjálfaraferlinum í gærkvöld þegar hann stýrði liði Fram gegn HK í Kórnum í 26. og næstsíðustu umferð Bestu deildar karla í fótbolta.
Rúnar var við stjórnvölinn í 262. skipti í efstu deild karla og er þar með orðinn fjórði leikjahæsti þjálfari deildarinnar frá upphafi, á eftir Ólafi Jóhannessyni, Heimi Guðjónssyni og Loga Ólafssyni.
Rúnar fór upp fyrir Ásgeir Elíasson, hinn sigursæla þjálfara Fram, sem stýrði samtals 261 leik í deildinni á árum áður.
Af þessum 262 leikjum Rúnars eru 236 fyrir KR og 26 fyrir Fram. Hann fór fyrr á tímabilinu fram úr Bjarna Jóhannssyni, Kristjáni Guðmundssyni og Ólafi H. Kristjánssyni í leikjafjölda í deildinni.
Viktor Jónsson skoraði sitt 18. mark í deildinni á þessu tímabili þegar Skagamenn töpuðu 4:3 fyrir Víkingi í magnaðri viðureign liðanna á Akranesi á laugardaginn. Þar með er Viktor kominn í færi til að jafna eða jafnvel slá markamet deildarinnar sem er 19 mörk, þegar Skagamenn heimsækja Val í lokaumferðinni næsta laugardag.
Fimm leikmenn eiga metið saman, þeir Pétur Pétursson (1978), Guðmundur Torfason (1986), Þórður Guðjónsson (1993), Tryggvi Guðmundsson (1997) og Andri Rúnar Bjarnason (2017).
Benoný Breki Andrésson úr KR og Patrick Pedersen geta líka gert atlögu að metinu í lokaumferðinni en þurfa þá þrennu til að jafna það því báðir hafa þeir skorað 16 mörk fyrir sitt félag á tímabilinu.
Úrslitin í 26. umferð:
ÍA - Víkingur R. 3:4
FH - Valur 1:1
Breiðablik - Stjarnan 2:1
KA - Vestri 2:1
Fylkir - KR 0:1
HK - Fram 2:1
Markahæstir í deildinni:
18 Viktor Jónsson, ÍA
16 Benoný Breki Andrésson, KR
16 Patrick Pedersen, Val
13 Emil Atlason, Stjörnunni
11 Helgi Guðjónsson, Víkingi R.
11 Jónatan Ingi Jónsson, Val
10 Gylfi Þór Sigurðsson, Val
9 Danijel Dejan Djuric, Víkingi R.
9 Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki
9 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
9 Valdimar Þór Ingimundarson, Víkingi R.
8 Andri Rúnar Bjarnason, Vestra
8 Ari Sigurpálsson, Víkingi R.
8 Björn Daníel Sverrisson, FH
7 Arnþór Ari Atlason, HK
7 Atli Þór Jónasson, HK
7 Ásgeir Sigurgeirsson, KA
7 Hallgrímur Mar Steingrímsson, KA
7 Hinrik Harðarson, ÍA
7 Ísak Snær Þorvaldsson, Breiðabliki
7 Kjartan Kári Halldórsson, FH
7 Nikolaj Hansen, Víkingi R.
7 Sigurður Bjartur Hallsson, FH
6 Alex Freyr Elísson, Fram
6 Atli Sigurjónsson, KR
6 Guðmundur Magnússon, Fram
6 Luke Rae, KR
6 Viðar Örn Kjartansson, KA
6 Viktor Karl Einarsson, Breiðabliki
Næstu leikir:
26.10. KR - HK
26.10. Fram - KA
26.10. Vestri - Fylkir
26.10. Stjarnan - FH
26.10. Valur - ÍA
27.10. Víkingur R. - Breiðablik