„Ég myndi ekki nenna að leggja þetta á mig aftur“

„Þetta var mikill skellur og mjög dramatískt allt saman,“ sagði Íslandsmeistarinn og knattspyrnumaðurinn Höskuldur Gunnlaugsson í Dagmálum.

Höskuldur varð Íslandsmeistari í annað sinn á dögunum með uppeldisfélagi sínu Breiðabliki eftir sigur gegn Víkingi úr Reykjavík í Fossvoginum en Höskuldur hefur verið fyrirliði Breiðabliks frá árinu 2020.

Brutu ákveðinn ís

Blikar voru mjög nálægt því að verða Íslandsmeistarar í annað sinn í sögu félagsins, tímabilið 2021, en í næstsíðustu umferð deildarinnar brenndi Árni Vilhjálmsson af á vítapunktum í Kaplakrika á sama tíma og Ingvar Jónsson varði vítaspyrnu í Vesturbænum fyrir Víkinga.

Breiðablik, sem hafði leitt meira og minna allt tímabilið missti bikarinn því frá sér til Víkinga í næstsíðustu umferðinni en liðið var á toppi deildarinnar fyrir leikina tvo.

„Þetta var mikill tilfinningarússíbani, ég myndi ekki nenna að leggja þetta á mig aftur,“ sagði Höskuldur.

„Sem betur fer var búið að innstimpla það inn í okkur að horfa á hlutina í stærra samhengi. Horfa á vegferðina til lengri tíma og við vorum nokkuð fljótir að leggja vonbrigðin og höggið til hliðar.

Við spiluðum fáránlega góðan, flottan og skilvirkan fótbolta. Við brutum ákveðinn ís líka í Evrópuverkefnunum. Það var augljóst að við vorum á réttri leið, með tímabilið 2021 til hliðsjónar, og það var ekkert annað í stöðunni en að sækja bikarinn tímabilið 2022,“ sagði Höskuldur meðal annars.

Viðtalið við Höskuld í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Höskuldur Gunnlaugsson.
Höskuldur Gunnlaugsson. mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert