Gamla ljósmyndin: Markverðir anda léttar

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Markvarðahrellirinn frá Grindavík Alfreð Finnbogason tilkynnti á dögunum að knattspyrnuferlinum væri lokið en Alfreð lék síðast með Eupen í Belgíu. 

Um fimmtán ár eru liðin frá því Alfreð kom fram á sjónarsviðið í meistaraflokki en hann var í leikmannahópi Breiðabliks sem varð bikarmeistari árið 2009. Sumarið eftir varð Breiðablik Íslandsmeistari í fyrsta skipti í karlaflokki í íþróttinni og var Alfreð þá í lykilhlutverki. 

Meðfylgjandi mynd tók Eggert Jóhannesson í toppslag Breiðabliks og ÍBV á Kópavogsvellinum í ágúst 2010. Alfreð tryggði þá Blikum mikilvægt stig er hann jafnaði 1:1 fyrir framan rúmlega 3 þúsund áhorfendur. ÍBV barðist um titilinn við Breiðablik á þessu Íslandsmóti og var ÍBV undir stjórn Heimis Hallgrímssonar sem síðar stýrði Alfreð í landsliðinu. 

„Eyjamönnum tókst þó ekki að verjast Alfreð Finnbogasyni enda standast fáir honum snúning í sumar. Alfreð er þyngdar sinnar virði í gulli fyrir Blika og það sannaðist í gærkvöldi,“ skrifaði Kristján Jónsson í umfjöllun um leikinn í Morgunblaðinu 17. ágúst. 

Á mynd Eggerts er Alfreð kominn í færi hægra megin í vítateignum í uppbótartíma. Matt Garner sækir að honum og markvörðurinn Albert Sævarsson kemur út á móti. Alfreð lyfti boltanum yfir Albert en Andri Ólafsson fyrirliði ÍBV bjargaði á marklínu. 

Al­freð er 35 ára gam­all og lék sem at­vinnumaður frá ár­inu 2010, með Lok­eren og Eupen í Belg­íu, Hels­ing­borg í Svíþjóð, He­eren­veen í Hollandi, Real Sociedad á Spáni, Olymp­iacos í Grikklandi og Lyngby í Danmörku en hann lék lengst með Augs­burg í Þýskalandi, í sjö ár. Alfreð skoraði mark fyrir lið frá átta löndum í deildar-eða bikarleikjum sem er merkileg staðreynd. 

Alfreð varð sumarið 2018 fyrstur íslenskra knattspyrnumanna til að skora í lokakeppni HM þegar hann skoraði í jafnteflisleiknum fræga gegn Argentínu í Moskvu. 

Hér þarf á stikla á stóru á ferli Alfreðs en sem dæmi má nefna að enginn Íslendingur hefur skorað jafn margar þrennur í fimm sterkustu deildum Evrópu en Alfreð skoraði þrívegis þrennu fyrir Augsburg og gerði það raunar á aðeins tólf mánuðum. 

Alfreð lék 73 A-landsleiki og skoraði í þeim 18 mörk. Hann lék einnig í lokakeppni EM 2016. 

Alfreð hafnaði í 5. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins árið 2018 og í 7. sæti 2012 og 2013. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka