Axel um KR: Samband sem gekk ekki upp

Axel Óskar Andrésson í leik með KR í sumar.
Axel Óskar Andrésson í leik með KR í sumar. mbl.is/Ólafur Árdal

„Það var mjög erfitt að vera í jafn stórum klúbbi og KR er, þegar gengið var eins og það var,“ sagði fótboltamaðurinn Axel Óskar Andrésson, nýjasti leikmaður Aftureldingar, í samtali við mbl.is í Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.

Axel Óskar, sem er 26 ára gamall, skrifaði undir þriggja ára samning við uppeldisfélag sitt í gær en hann kemur til félagsins frá KR þar sem hann lék á síðustu leiktíð.

Lærði mikið í Vesturbænum

„Þetta var erfitt en ég lærði mjög mikið líka. Ég talaði margoft um það, áður en tímabilið hófst, að ég myndi ekki vanmeta Bestu deildina á neinn hátt. Það er bara þannig að hlutirnir gengu ekki upp, þrátt fyrir að við hefðum verið með marga mjög góða leikmenn í hópnum. Ég elskaði að vera þarna að mörgu leyti en þetta samband gekk því miður ekki upp,“ sagði Axel Óskar.

Axel fékk talsverða gagnrýni fyrir frammistöðu sína í sumar, meðal annars í hlaðvörpum þar sem einhverjir töluðu um hann sem slakasta leikmann deildarinnar, en hann kom til Íslands fyrir tímabilið eftir tíu ár í atvinnumennsku erlendis.

Vill gera betur

„Mér finnst ekki eins og ég hafi eitthvað að sanna en það segir sig samt sjálft að mig langar til þess að gera betur en á síðustu leiktíð. Ég kem til félagsins sem einn af stóru póstunum og það er búist við miklu af manni.

Við fengum mikið af mörkum á okkur og ég skildi að einhverju leyti þessa umræðu í hlaðvörpum landsins. Hvort ég hafi verið sammála henni er svo allt annað mál. Það er æðislegt að fá tækifæri til þess að leika annað tímabil hérna heima og vonandi stendur maður sig vel,“ sagði Axel Óskar í samtali við mbl.is.

Axel Óskar Andrésson er mættur heim í Aftureldingu.
Axel Óskar Andrésson er mættur heim í Aftureldingu. mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka