Forsetinn dró upp poka og byrjaði að dreifa peningum

„Það voru margir í liðinu sem voru ekki búnir að fá greidd laun í langan tíma, held ég,“ sagði Skagamaðurinn og knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Arnór Smárason í Dagmálum.

Arnór, sem er 36 ára gamall, lagði skóna á hilluna á dögunum en hann á að baki farsælan atvinnumannaferil í Hollandi, Danmörku, Svíþjóð, Rússlandi og Noregi.

Forsetinn lofaði þeim bónus

Arnór gekk til liðs við Torpedo Moskvu á láni frá Helsingborg árið 2015 og upplifði ýmislegt áhugavert í Rússlandi.

„Fyrir einn leikinn þá lofaði forsetinn okkur tvöföldum bónus ef að við myndum vinna leikinn,“ sagði Arnór.

„Við vinnum leikinn og það var partí í klefanum. Svo fóru menn að biðja um þennan bónus og þá kannaðist forsetinn ekki við neitt. Þetta fór ekki vel í menn og daginn eftir var sammælst um það að við myndum ekki fara út á æfingu fyrr  en það væri búið að greiða okkur bónusinn.

Þá fór forsetinn út í bíl til sín, náði í poka fullan af peningum og dreifði í mannskapinn,“ sagði Arnór meðal annars.

Viðtalið við Arnór í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Arnór Smárason.
Arnór Smárason. AFP/Karim Jaafar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert