„Það er risastór partur af þessu starfi, að vera markmaður og höndla það,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, í Dagmálum.
Hannes Þór, sem er fertugur, lagði skóna á hilluna haustið 2021 eftir afar farsælan feril þar sem hann var í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu og fór á tvö stórmót með liðinu.
Hannes Þór er einn besti markvörður sem Ísland hefur átt en hann var meðal annars spurður að því hvernig hann tókst á við hræðsluna um að gera mistök, sem eru oftast mjög dýr í tilfelli markvarða.
„Þú mátt ekki láta þetta hafa of neikvæð áhrif en þú þarft samt að vera meðvitaður um allt sem gerist,“ sagði Hannes.
„Þú getur eyðilagt leikinn á einni sekúndu og þú stýrir því ekkert hvenær þú gerir mistök því þú ert alltaf að gera þetta besta. Mitt tæki, til þess að díla við þetta, var að reyna að vinna mér inn fyrir sjálfstraustinu og heppninni.
Ef ég geri allt sem í mínu valdi stendur á æfingum og í aðdraganda leikjanna. Taka utan um allt sem ég get stjórnað þá gat ég farið nokkuð samviskulaus inn í leikina því ég vissi að ég gat ekki gert neitt meira í undirbúningnum,“ sagði Hannes meðal annars.