„Þetta er erfiður riðill en á sama tíma mjög spennandi riðill,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir að dregið var í riðla fyrir undankeppni HM 2026 í Zürich í Sviss í dag.
Ísland mætir annaðhvort Frakklandi eða Króatíu úr styrkleikaflokki eitt, Úkraínu úr styrkleikaflokki tvö og loks Aserbaídsjan úr styrkleikaflokki fjögur en sigurvegarinn úr leik Frakklands og Króatíu í 8-liða úrslitum Þjóðadeildarinnar leikur með Íslandi í D-riðlinum.
„Það á eftir að koma í ljós hvort það verða Frakkar eða Króatar en ef ég mætti ráða þá myndi ég nú velja Króatana þó svo að við höfum mætt þeim frekar oft síðustu ár. Frakkarnir eru með gríðarlega sterkt lið og eitt besta landslið heims í dag. Króatarnir eru ekki alveg jafn góðir í dag og þeir voru þegar við vorum að mæta þeim nánast árlega.
Það er ekki langt síðan að við spiluðum við Úkraínu og það er mikil eftirsjá eftir þann leik. Það verður gaman að mæta þeim aftur og fá þannig tækifæri til þess að leiðrétta þau mistök sem við gerðum í umspilinu um sæti á EM. Maður þekkir Aserbaídsjan ekki mikið en við munum kynna okkur þá vel, en það er klárt mál að það er langt ferðalag framundan,“ sagði Jóhann Berg sem á að baki 99 A-landsleiki og átta mörk.
Ísland hefur leik í undankeppni HM í september á næsta ári, þar sem liðið er í fjögurra liða riðli, og verður undankeppnin leikin í september, október og nóvember.
„Þetta er bæði jákvætt og neikvætt og það getur brugðið til beggja vona. Ef þú nærð í góð úrslit í fyrsta landsleikjaglugganum er auðveldara að ná upp stöðugleika og byggja þannig ofan á hann út undankeppnina. Á sama tíma getur þú lent í meiðslum, eins og við lentum í í Þjóðadeildinni, og þá gætu lykilmenn alveg misst af allri undankeppninni ef svo ber undir.
Vonandi verða bara allir klárir í slaginn í september því markmiðið er klárlega að komast alla leið í lokakeppnina. Til þess þurfum við að ná upp stöðugleika og við þurfum alla okkar leikmenn í sínu bestu formi. Við þurfum að geta stillt upp sama miðvarðaparinu líka, það er okkur mjög mikilvægt. Við eigum að setja stefnuna á fyrsta sætið í riðlinum, sérstaklega ef við fáum Króatana frekar en Frakkana,“ bætti Jóhann Berg við í samtali við mbl.is en liðið í efsta sæti riðilsins fer beint á HM en liðið sem endar í öðru sæti þarf að fara í umspil.