„Ég var búinn að vera aðalmarkvörður í landsliðinu í tvö ár en atvinnumannaliðin voru samt ekki að stökkva á 28 ára gamlan markmann,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, í Dagmálum.
Hannes Þór, sem er fertugur, lagði skóna á hilluna haustið 2021 eftir afar farsælan feril þar sem hann var í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu og fór á tvö stórmót með liðinu.
Hannes Þór hélt út í atvinnumennsku árið 2014, þá 29 ára gamall, þegar hann samdi við Sandnes Ulf í norsku úrvalsdeildinni.
„Ég lagði mikið kapp á að koma þessu í gegn, þegar þetta stóð mér til boða,“ sagði Hannes.
„KR-ingarnir héldu að þeir gætu mögulega selt mig en þetta er ekki þannig, þetta er mjög erfitt. Það sýndi sig líka seinna meir, þegar leið á ferilinn, að það skipti engu máli hvað ég gerði með landsliðinu.
Það var alltaf erfitt fyrir mig að fá næsta skref,“ sagði Hannes meðal annars.