Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór Jónsson hefur tekið upp hanskann fyrir föður sinn Jón Rúnar Halldórsson en sá síðarnefndi hefur verið talsvert í umræðunni vegna skýrslu Deloitte sem unnin var fyrir Hafnarfjarðabæ vegna knatthússins Skessunnar í Hafnarfirði.
Í skýrslu Deloitte kemur meðal annars fram að ónákvæmni hafi gætt hjá FH í skýrslu sem fyrirtækið vann fyrir Hafnarfjarðarbæ, þar sem farið var yfir framkvæmd úttektar á meðferð fjármuna Fimleikafélags Hafnarfjarðar (FH) á byggingartíma knatthúss í eigu félagsins, Skessunnar.
Jón Rúnar sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann telur ómaklega að sér vegið í fjölmiðlaumfjöllun um málið. Þá segir Jón Rúnar að Deloitte ekki hafa gert neina tilraun til að leita skýringa hjá honum áður en gerð var athugasemd í skýrslunni við aðkomu Best-húsa, þar sem Jón er eigandi, og greiðslu til fyrirtækisins.
„Stoltur af pabba og öllu sem hann hefur áorkað fyrir félagið okkar,“ skrifaði Friðrik Dór í færslu sem hann birti á Facebook.
„Ef hann er í skuld einhvers staðar þá er það allavega ekki uppá Krika, það er morgunljóst. Verð að segja líka hvað það hefur verið dýrmætt að finna hvað hinn almenni FH-ingur hefur stutt okkur í þessum skrýtna stormi,“ segir enn fremur í færslu Friðriks sem má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.