Arnar: „Tók mig 48 ár að horfast í augu við þetta“

Arnar Gunnlaugsson situr fyrir svörum á sínum fyrsta blaðamannafundi sem …
Arnar Gunnlaugsson situr fyrir svörum á sínum fyrsta blaðamannafundi sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins. mbl.is/Karítas

„Síðustu dagar hafa farið í það að svara þeim fjölmörgu skilaboðum sem ég hef fengið,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í vikunni.

Arnar, sem er 51 árs gamall, skrifaði undir þriggja ára samning við Knattspyrnusambandið en hann hafði áður stýrt karlaliði Víkings úr Reykjavík frá árinu 2018.

Finnur fyrir miklum meðbyr

Arnar er líklega einn vinsælasti þjálfari landsins á meðal almennings enda þekktur fyrir einlæga nálgun, bæði innan vallar sem utan.

„Ég finn fyrir miklum meðbyr og mín tilfinning er sú að það er bara almenn ánægja með þessa ráðningu. Ég geri mér samt grein fyrir því að sú ánægja verður fljót að fara ef úrslitin verða okkur óhagstæð,“ sagði Arnar.

Næstu dagar fara aðeins í það að melta þetta allt saman og svo bara næstu skrefin með liðið. Það er stutt í næsta verkefni og tvö korter í þarnæsta verkefni og svo tekur við undankeppni HM sem er risastórt verkefni,“ sagði Arnar.

Hræddur og stressaður

Íslenskir landsliðsþjálfarar hafa fengið það óþvegið frá þjóðinni í gegnum tíðina. Er Arnar ekkert hræddur við umræðuna sem skapast í kringum landsliðið þegar illa gengur?

„Ég er mjög hræddur og mjög stressaður en það eru líka góða tilfinning að hafa. Mér hefur gengið hvað best þegar ég er einmitt hræddur, stressaður en jafnframt spenntur líka. Þessi blanda er mjög mikilvæg og menn þurfa aðeins að berskjalda sig í þessu því það er allt í lagi að vera hræddur og að sýna tilfinningar finnst mér.

Um leið og þú ert tilbúinn að horfast í augu við þennan ótta þá mun þér strax ganga betur í lífinu. Það tók mig 48 ár að horfast í augu við þetta. Ég er skíthræddur, mjög stressaður en mjög spenntur líka,“ bætti Arnar við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert