„Eins og maður væri að borga launin hans Messis“

Róbert Orri Þorkelsson og Lionel Messi.
Róbert Orri Þorkelsson og Lionel Messi. Ljósmynd/Eyþór/Martin Bernetti

Fótboltamaðurinn Róbert Orri Þorkelsson skrifaði á dögunum undir tveggja og hálfs árs samning við Víking úr Reykjavík en samningurinn gildir út keppnistímabilið 2027.

Hann kemur til félagsins frá Kongsvinger þar sem hann lék með liðinu í norsku B-deildinni á síðustu leiktíð, á láni frá CF Montréal, en Róbert gekk til liðs við kanadíska félagið, sem leikur í bandarísku MLS-deildinni, árið 2021 frá Breiðabliki.

Argentínumaðurinn Lionel Messi gekk til liðs við Inter Miami í MLS-deildinni árið 2023 frá París SG í Frakklandi en hann er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður sögunnar.

Uppselt á alla leiki

„Koma Messis til Bandaríkjanna var þvílíkt stökk fyrir deildina,“ sagði Róbert Orri í samtali við mbl.is.

„Maður var allt í einu farinn að þurfa að borga fyrir miða sem var vanur að geta gefið, bara af því að Messi var mættur. Tilfinningin var eins og maður væri að borga launin hans Messis. Allt í einu var uppselt á alla leiki og þessir miðapakkar sem eru í boði, ef leikir Inter Miami voru inn í pökkunum, þá urðu þeir uppseldir á núll einni. 

Áhorfið á deildina fór í hæstu hæðir og þetta var mjög stórt á sínum tíma. Þetta var ekki nálægt því jafn stórt þegar til dæmis Luis Suárez og Sergio Busquets komu. Messi er langstærsta nafnið sem hefur komið í deildina, fyrr og síðar, og áhrifin sáust víða,“ sagði Róbert Orri í samtali við mbl.is.

Ítarlegt viðtal við Róbert Orra má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert