Afboðaði komu sína í landsliðsverkefni og fór á Prikið

„Ég var alveg inn í landsliðinu þangað til ég tók ákvörðun um það að hætta í landsliðinu,“ sagði knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Theódór Elmar Bjarnason í Dagmálum.

Theódór Elmar, sem er 37 ára gamall, lagði skóna á hilluna í haust eftir farsælan feril og var ráðinn aðstoðarþjálfari uppeldisfélags síns KR.

Bað Óla Jó afsökunar

Elmar lék 41 A-landsleik fyrir Ísland og fór með liðinu á eitt stórmót, EM 2016 í Frakklandi, en hann lék ekkert með landsliðinu á árunum 2010 til ársins 2014.

„Ég var settur á bekkinn og þá tók ég þá ákvörðun að fara frekar á Prikið til þess að fagna afmæli bróður míns, í stað þess að fara með landsliðinu til Norður-Makedóníu,“ sagði Theódór Elmar.

„Óli Jó var með liðið þarna og ég hringdi og tilkynnti þeim það að ég ætlaði ekki með í seinni leikinn og fór í partí. Hann reyndi ekki að sannfæra mig eða neitt og sagði bara að ég myndi læra af þessu seinna meir.

Stundum þarf maður að fá að hlaupa af sér hornin án þess að einhver reyni að stýra manni. Ég gerði það en ég hefði 100 prósent gert þetta öðruvísi í dag. Við Óli spjölluðum svo saman seinna meir og ég bað hann afsökunar á þessu,“ sagði Theódór Elmar meðal annars.

Viðtalið við Theódór Elmar í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Theódór Elmar Bjarnason.
Theódór Elmar Bjarnason. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert