„Þú breytir ekki DNA í mannskepnunni,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í Dagmálum.
Arnar, sem er 51 árs gamall, var ráðinn landsliðsþjálfari þann 15. janúar eftir að hafa stýrt Víkingi úr Reykjavík frá árinu 2018 en liðið varð tvívegis Íslandsmeistari undir stjórn Arnars og fjórum sinnum bikarmeistari.
Arnar tók sér hlé frá fótbolta eftir að hann lagði skóna á hilluna árið 2011 en snéri svo aftur í þjálfun fimm árum síðar eftir að hafa meðal annars reynt fyrir sér í viðskiptalífinu.
„Við vorum byrjaðir að horfa á fótbolta þegar við vorum tveggja ára gamlir,“ sagði Arnar.
„Þegar við vorum þriggja og fjögurra ára heimtuðum við það að fara á landsleiki á Laugardalsvelli. Fótboltinn hefur alltaf verið í blóðinu á manni. Þú getur hlaupið en þú getur ekki falið þig. Maður reyndi að hlaupa frá leiknum því hann var vondur við þig, að þér fannst.
Manni fannst maður eiga meira skilið, miðað við allt sem maður lagði á sig, en það er röng hugsun. Þú fórst í burtu af því að þú vorkenndir sjálfum þér en svo var maður kallaður aftur til baka. Heppni spilar mjög stóran þátt í lífi okkar allra og mun meiri en fólk gerir sér grein fyrir.
Ég fékk símtal frá Hödda Magg, umsjónarmanni Pepsi-markanna, og þá var sá þáttur að ná flugi. Þá þurfti ég að byrja að fylgjast aftur með leikjum og það varð aftur kveikjan að áhuganum,“ sagði Arnar meðal annars.
Viðtalið við Arnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.