Álftanes vann Grindavík eftir spennu

Dúi Þór Jónsson, hér í baráttu við Arnór Tristan Helgason, …
Dúi Þór Jónsson, hér í baráttu við Arnór Tristan Helgason, tryggði Álftnesingum dramatískan sigur. mbl.is/Eyþór

Álftanes vann afar sterkan sigur á Grindavík, 94:92, í 18. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í kvöld.

Álftanes fór með sigrinum upp fyrir Grindavík og er nú í fimmta sæti með 18 stig, jafnmörg og Grindavík sæti neðar.

Álftanes var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með tíu stigum, 30:20, að loknum fyrsta leikhluta. Munurinn var svo átta stig, 54:46, í hálfleik.

Grindavík hóf síðari hálfleikinn vel og minnkaði muninn fljótt í fjögur stig, 54:50. Álftanes náði hins vegar aftur vopnum sínum og komst stuttu síðar níu stigum yfir, 61:52.

Áfram voru sveiflur þar sem Álftanes komst 12 stigum yfir, 68:56, en munurinn var sex stig, 70:64, að loknum þriðja leikhluta eftir að Grindavík hafði minnkað muninn í fjögur stig skömmu áður.

Það sama var uppi á teningnum í fjórða leikhluta. Álftanes komst ellefu stigum yfir, 78:67, en þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður jafnaði Grindavík metin í 81:81.

Lokamínúturnar sem fóru í hönd voru æsispennandi þar sem liðin skiptust á að ná naumri forystu.

Að lokum var það Álftanes sem stóð uppi sem sigurvegari. Dúi Þór Jónsson tryggði gestunum tveggja stiga sigur með því að setja niður síðustu körfu leiksins átta sekúndum fyrir leikslok.

David Okeke var stigahæstur hjá Álftanesi með 28 stig og átta fráköst.

Jeremy Pargo fór á kostum hjá Grindavík en hann skoraði 39 stig og gaf átta stoðsendingar.

Grindavík - Álftanes 92:94

Smárinn, Bónus deild karla, 12. febrúar 2025.

Gangur leiksins: 2:5, 8:16, 15:22, 20:30, 25:41, 30:46, 37:51, 46:54, 50:56, 56:61, 56:68, 64:70, 67:78, 79:81, 86:86, 92:94.

Grindavík: Jeremy Raymon Pargo 39/8 stoðsendingar, Deandre Donte Kane 17/17 fráköst/7 stoðsendingar, Daniel Mortensen 9/5 fráköst, Ólafur Ólafsson 8, Lagio Grantsaan 6/5 fráköst, Bragi Guðmundsson 5, Arnór Tristan Helgason 5, Valur Orri Valsson 3.

Fráköst: 26 í vörn, 9 í sókn.

Álftanes: David Okeke 28/8 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 18/6 fráköst/8 stoðsendingar, Haukur Helgi Briem Pálsson 15/4 fráköst, Dimitrios Klonaras 13/7 fráköst, Dúi Þór Jónsson 10/4 fráköst, Lukas Palyza 5, Viktor Máni Steffensen 3, Tómas Þórður Hilmarsson 2.

Fráköst: 26 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Birgir Örn Hjörvarsson.

Áhorfendur: 578.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert