Danijel Dejan Djuric, knattspyrnumaður hjá Víkingi úr Reykjavík, er með athyglisverðan bakgrunn. Hann er fæddur í Búlgaríu og á búlgarska móður og serbneskan föður. Hann var aðeins tveggja ára gamall þegar fjölskyldan flutti á Blönduós frá Búlgaríu.
„Mér fannst geggjað að vera á Blönduósi. Fólk trúir mér varla þegar ég segi þeim að ég sé frá Blönduósi. Ég er uppalinn þar en ég er líka með Balkanbakgrunninn og úr höfuðborginni. Það má segja að ég sé barn alheimsins,“ sagði Danijel léttur við mbl.is.
Hann tengir mikið við Balkanskagann, hvaðan sem báðir foreldrar eru. Danijel felur ekki tilfinningarnar þegar hann spilar fótbolta.
„Ég held það sé frá Balkanum sem þessar tilfinningar inni á vellinum koma. Svo er ég líka með íslensku einkennin þegar ég spila fótbolta. Það er gaman að vera frá öllum löndum heimsins.
Ég var mjög erfiður þegar ég var yngri og ég er það enn þá. Ég held ég hafi rifist við alla í liðinu á einhverjum tímapunkti. Ég geri allt til þess að vinna. Það má sýna tilfinningar og sína innri manneskju þegar maður spilar fótbolta.
Mér finnst ekki endilega gaman að standa eitthvað út en ég er bara ég. Ef einhver er ósáttur við hvernig ég er, þá er það bara þannig. Fólk er með sínar skoðanir og mér er bara slétt sama. Mér finnst gaman þegar íþróttir eru litríkar og leiðinlegt þegar fólk hagar sér eins og vélmenni.“
Rígurinn sem er á milli Víkinganna og Breiðabliks um þessar mundir er því akkúrat eitthvað fyrir Danijel.
„Þessi rígur kraumar í mér alla daga og ég snerti ekki símann minn í viku eftir tapið í úrslitaleiknum fyrir þeim. Þetta var erfitt og maður datt í smá holu. En þetta er fegurðin við þetta. Þú vinnur stundum og tapar stundum,“ sagði hann.