„Ég verð mjög meyr að tala um þetta,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í Dagmálum.
Arnar, sem er 51 árs gamall, var ráðinn landsliðsþjálfari þann 15. janúar eftir að hafa stýrt Víkingi úr Reykjavík frá árinu 2018 en liðið varð tvívegis Íslandsmeistari undir stjórn Arnars og fjórum sinnum bikarmeistari.
Arnar viðurkennir að kveðjustundin með Víkingum hafi verið tilfinningaþrungin.
„Þeir gáfu mér gjöf og ég reyndi að koma einhverjum orðum út úr mér í búningsklefanum,“ sagði Arnar.
„Maður verður meyrari með aldrinum, sem er mjög gott. Þetta var meira en bara leikmenn, þetta var fjölskyldan mín og strákarnir mínir sem ég var búinn að vera lengi með.
Ég met þessa drengi mjög mikils og þeir voru alltaf tilbúnir að hlusta á bullið í manni. Klúbburinn er mjög sterkur í dag, bæði innan sem utan vallar, og Víkingar varð hið fullkomna starf fyrir mig,“ sagði Arnar meðal annars.
Viðtalið við Arnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.