„Hann hefur komið mjög vel inn í þetta,“ sagði Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is um Sölva Geir Ottesen sem tók við liðinu af Arnari Gunnlaugssyni þegar Arnar tók við íslenska landsliðinu.
„Hann er aðeins öðruvísi en Arnar en ég held það muni koma okkur vel. Við getum byggt á það sem Arnar var með og svo kemur Sölvi með sitt ofan á það. Það er mjög góð blanda. Eins og gefur að skilja er Sölvi aðeins varnarsinnaðri. Hann hefur sagt það hreint út að við verðum að spila vörn til að vinna leiki. Það er stærsti munurinn,“ sagði Danijel og hélt áfram:
„Arnar er einn besti þjálfari Íslandssögunnar. Við pössuðum mjög vel saman. Hann spilaði svipaða stöðu og ég þegar hann var leikmaður og vildi alltaf spila góðan fótbolta. Ég tengdi mjög vel við hann sem manneskju og sem þjálfara. Hann er besti þjálfari sem ég hef verið með.“
Danijel hefur spilað mjög vel með Víkingi síðan hann kom til félagsins frá Midtjylland frá Danmörku. Hugurinn leitar aftur út.
„Maður er bara að einbeita sér að þessu verkefni. Eðlilega er áhugi og mann langar út en ég er ekki að spá of mikið í það. Núna er það bara næsti leikur,“ sagði Danijel.