„Eigum skilið að fá að heyra það“

Sverrir Ingi Ingason fagnar í leik með Panathinaikos.
Sverrir Ingi Ingason fagnar í leik með Panathinaikos. Ljósmynd/Panathinaikos

„Þeir létu okkur heldur betur hafa fyrir þessu. Ég vissi það fyrir leik þar sem maður þekkir íslensku geðveikina og hugarfarið þegar það er svona leikur í húfi,“ sagði Sverrir Ingi Ingason, miðvörður Panathinaikos, eftir tap fyrir Víkingi úr Reykjavík í Sambandsdeildinni í fótbolta í kvöld.

„Mér fannst okkar lið ekki tilbúið frá fyrstu mínútu. Við lentum undir eftir fast leikatriði, þurfum svo að skipta tveimur mönnum af velli í fyrri hálfleik og það varð einhvern veginn saga leiksins.

Við vorum mikið með boltann í fyrri hálfleik án þess að skapa okkur einhver alvöru færi. Þeir voru virkilega hættulegir í skyndisóknum og það var svolítið saga leiksins. Mér fannst við eiginlega stálheppnir að fá vítaspyrnu þarna í lokin til þess að halda í vonina.

Víkingar gerðu okkur virkilega erfitt fyrir og ég hrósa þeim fyrir hvernig þeir settu upp leikinn. Baráttuandinn og viljinn í þeim sýndi að þeir eru komnir langt sem lið,“ bætti Sverrir Ingi við.

Elton Fikaj, 19 ára Albani, kom inn á í vörnina í fyrri hálfleik og lék sinn fyrsta leik fyrir Panathinaikos.

„Hann fékk sitt hlutverk í dag. Við erum með marga á meiðslalistanum eins og staðan er og fengum tvo í viðbót á hann. Hann þurfti bara að stíga upp og gerði vel. Þetta var kannski ekki auðveldur fyrsti leikur að koma inn í.

Það voru ýmis atriði sem hann hefði getað gert betur, og það skiljanlega, og við allir sem lið. Við þurfum að nota þá leikmenn sem eru leikfærir eins og staðan er núna. En þetta var ekki nógu gott, það er bara svoleiðis,“ sagði hann um félaga sinn í miðverði.

Þá lendirðu í vandræðum

Grískir fjölmiðlar eru brjálaðir eftir tapið og tala um verstu úrslit í sögu félagsins.

„Ég náttúrlega þekki ekki sögu félagsins það mikið og hvað hefur gerst en miðað við hvar Panathinaikos er sem klúbbur og leikmennina sem við höfum þá gerðum við ekki nóg til þess að vinna leikinn.

Það sýnir sig í fótbolta að ef við erum ekki reiðubúnir og aðstæðurnar eru þannig að menn séu ekki tilbúnir að leggja sig fram eða hvað það er, þá lendirðu í vandræðum. Það skiptir ekki máli hver mótherjinn er.

Við höfum séð að íslensk lið geta strítt öllum liðum þannig að þetta var mikilvægt mark fyrir okkur í lokin til þess að vera inni í þessu.

Við þurfum bara að taka ábyrgð. Við vitum að við erum sigurstranglegri og eigum að gera miklu betur en við gerðum. Við eigum ekkert annað skilið en að fá að heyra það.

Við þurfum að stíga upp, við erum í smá mótlæti núna. Við höfum ekki verið að spila vel síðustu þrjá leiki og tapað þeim öllum þremur. Það er brekka en við þurfum að sýna að við séum alvöru karakterar til að snúa þessu við,“ sagði Sverrir Ingi um grísku pressuna.

Menn að hrynja niður

Panathinaikos hefur átt erfitt uppdráttar í síðustu leikjum og spilar þétt.

„Við erum náttúrlega búnir að vera að spila rosalega mikið af leikjum undanfarið, mikið af alvöruleikjum og toppslögum. Við erum á þeim tímapunkti núna að menn eru að hrynja niður, sem er vissulega ekki gott.

En við erum með stóran og breiðan hóp og þá þurfa bara aðrir að stíga upp, taka af skarið og gefa liðinu eitthvað því við vitum að við erum þannig leikmenn.

Það eru einhverjir leikmenn sem eru fyrir utan Evrópuhópinn sem geta vonandi hjálpað okkur á sunnudaginn í deildarleiknum. En við þurfum að gera betur sem lið, það er nokkuð ljóst,“ sagði hann.

Aldrei spilað við íslenskt lið

Spurður hvernig honum hafi þótt að spila við íslenskt félagslið sagði Sverrir Ingi:

„Síðan ég fór erlendis hef ég aldrei þurft að spila við íslenskt lið. Það var sérstaklega gaman fyrir mig að upplifa það. Það er gaman að sjá hvað íslenskur fótbolti er kominn langt.

Við eigum að geta verið stoltir af því að þeir séu á þessu stigi að vinna lið eins og okkar. Það er frábært og sýnir að deildin heima er að styrkjast. Vonandi getum við séð fleiri íslensk lið halda þessari vegferð áfram af því að þetta getur gefið félögunum rosalega mikið.“

Hann lék á sínum tíma nokkra landsleiki með Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings. Hann er nýtekinn við og byrjar með besta móti.

„Já, þú getur rétt ímyndað þér. Ég þekki Sölva og veit hversu heltekinn hann er. Ég hitti hann í gær fyrir æfingu og hann sagði að hann væri örugglega búinn að ofgreina okkur.

Ég vissi að hann myndi finna helstu glufur til þess að særa okkur og þeir gerðu það. Við þurfum heldur betur að spýta í lófana fyrir seinni leikinn ef við ætlum að eiga möguleika á að fara áfram,“ sagði Sverrir Ingi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert