Þorri Mar Þórisson, knattspyrnumaður frá Dalvík, er genginn til liðs við Stjörnuna en hann fékk sig leystan undan samningi hjá Öster í Svíþjóð á dögunum.
Þorri er 25 ára bakvörður sem kom til KA frá Dalvík/Reyni árið 2019 og lék með Akureyrarliðinu fram á mitt sumar 2023 þegar hann gekk til liðs við Öster.
Hann lék með Öster í hálft annað tímabil í sænsku B-deildinni en liðið vann sér sæti í úrvalsdeildinni fyrir komandi tímabil.
Þorri missti hins vegar af seinni hluta tímabilsins 2024 vegna meiðsla og náði aðeins að spila 11 af 30 leikjum Öster í B-deildinni, og samtals 22 deildarleiki fyrir félagið.
Hann lék 66 leiki með KA í efstu deild og skoraði þrjú mörk og lék jafnframt sem lánsmaður með Keflavík í 1. deildinni hluta tímabilsins 2019.