Sölvi Geir Ottesen, nýr þjálfari karlaliðs Víkings úr Reykjavík í fótbolta, lék með þremur félögum í Kína á leikmannaferlinum. Hann er nú staddur í Finnlandi fyrir leik Víkings og Panathinaikos í Sambandsdeildinni.
Sölvi hrósaði matnum á hóteli liðsins í Helsinki en hann hefur ekki alltaf notið þess að borða góðan mat á ferlinum.
„Ég hef spilað utan Evrópu og þá getur maður fengið menningarsjokk vegna matarins. Það skrítnasta sem ég hef borðað heitir hot pot í Kína.
Þá ertu við hringlaga borð og það er súpa í miðjunni, svo færðu hráan mat sem þú setur í pottinn, sýður sjálfur og ég fékk einu sinni nautatyppi. Hann var seigur og erfitt að tyggja hann. Ég prófaði hann bara einu sinni,“ sagði Sölvi léttur við mbl.is.