Þrautreynt lið í Evrópukeppni

Landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason er leikmaður Panathinaikos.
Landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason er leikmaður Panathinaikos. Ljósmynd/Panathinaikos

Víkingar mæta þrautreyndu „Evrópuliði þegar þeir taka á móti Panathinaikos frá Grikklandi í heimaleiknum í umspili Sambandsdeildar karla í fótbolta á Bolt-leikvanginum í Helsinki, höfuðborg Finnlands, í kvöld.

Panathinaikos er annað sigursælasta félag Grikklands, hefur orðið meistari 20 sinnum, en ekki unnið gríska meistaratitilinn síðan 2010. Olympiacos hefur nánast einokað hann frá árinu 1997 og unnið í 23 skipti frá þeim tíma en PAOK er þó ríkjandi meistari.

Panathinaikos er hins vegar ríkjandi bikarmeistari og vann bikarinn í 20. skipti síðasta vor þegar liðið lagði Aris í úrslitaleik.

Sem stendur er liðið í þriðja sæti grísku úrvalsdeildarinnar með 43 stig, fimm stigum á eftir Olympiacos og þremur á eftir AEK.

Slógu Frakkana út

Panathinaikos hóf keppni í Sambandsdeildinni í ágúst í umspili um að komast í deildarkeppnina og vann þar Lens, Frakklandi, 3:2 samanlagt.

Liðið byrjaði deildarkeppnina illa, gerði 1:1-jafntefli við Borac í Bosníu, tapaði 4:1 fyrir Chelsea á heimavelli og 2:1 fyrir Djurgården í Svíþjóð.

En Panathinaikos vann þrjá síðustu leikina, 1:0 gegn HJK Helsinki í Aþenu, 2:0 gegn The New Saints í Wales og loks 4:0 gegn Dinamo Minsk frá Hvíta-Rússlandi í lokaumferðinni þar sem liðið tryggði sér sæti í umspilinu og fékk 10 stig í 13. sæti af 36 liðum, tveimur stigum og sex sætum fyrir ofan Víking.

Grikkirnir mættu því tveimur sömu liðum og Víkingar og fengu eitt stig gegn Borac og Djurgården á meðan Víkingar fengu þrjú með því að vinna Borac.

Þá eru Víkingar þriðja Norðurlandaliðið sem Panathinaikos mætir í vetur, á eftir Djurgården og HJK, en leikurinn í kvöld fer einmitt fram á heimavelli HJK sem endaði í 30. sæti deildarkeppninnar og komst því ekki í umspilið.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert