„Það er ótrúlegt að vinna lið eins og Panathinaikos í umspili í Evrópukeppni. Ég er endalaust stoltur af liðinu og við sýndum allir hvað liðsheildin okkar er góð,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, sem skoraði annað mark Víkings, í samtali við mbl.is eftir sigurinn frækna á Panathinaikos í Sambandsdeildinni í fótbolta í gærkvöldi.
„Það var smá svekkjandi að fá þetta víti á okkur en annars erum við mjög sáttir. Við vildum eiga góðan séns þegar við förum í seinni leikinn og það verður svakaleg upplifun að fara til Aþenu og á þennan geggjaða völl hjá þessu risaliði,“ sagði Matthías.
Honum leið vel á meðan á leik stóð enda gekk illa hjá Panathinaikos að skapa færi stóran hluta leiks.
„Það er gott að spila hérna í Helsinki. Það var ískalt og við vorum á gervigrasi. Mér fannst við spila vel. Bæði lið hefðu getað skorað meira en mér fannst þetta sanngjarnt,“ sagði hann.
Matthías þurfti að bíða lengi eftir að fá að fagna markinu sínu því það var skoðað af myndbandsdómara í drjúga stund.
„Ég hugsaði bara, góði guð vinsamlegast gefðu okkur mark,“ sagði Matthías, hló og hélt áfram: „Maður veit aldrei þegar það er verið að teikna þessar línur. Maður vonaði það besta og sem betur fer var markið dæmt.“
Matthías er orðinn 38 ára og gríðarlega reynslumikill. Hann vann norska meistaratitilinn fjögur ár í röð með Rosenborg á sínum tíma en sigur á Panathinaikos í Evrópukeppni er ofarlega yfir hans stærstu afrek.
„Þetta er ofarlega. Ég var líka með súrsæta tilfinningu frá síðasta tímabili því ég reif liðband í hnénu í tvígang og var mikið frá vegna meiðsla. Ég vildi ekki enda ferilinn þannig og ég tel mig enn þá eiga nóg eftir. Það var magnað að upplifa svona með íslensku félagsliði,“ sagði Ísfirðingurinn sem var mjög ánægður með hve margir Víkingar lögðu leið sína til Finnlands.
„Það var æðislegt að sjá svona marga stuðningsmenn koma með okkur. Því miður gátum við ekki spilað á Íslandi en þetta var frábær stuðningur,“ sagði Matthías.