„Við höfum ekki fengið neitt tilboð í Gylfa Þór Sigurðsson, það er bara staðan,“ sagði Arnór Smárason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Val, í samtali við mbl.is í dag.
Gylfi Þór, sem er 35 ára gamall, var orðaður við Breiðablik í nýjasta hlaðvarpsþætti Dr. Football í gær en hann gekk til liðs við Valsmenn fyrir síðasta keppnistímabil.
Miðjumaðurinn skoraði 11 mörk í 19 leikjum Vals í Bestu deildinni á síðustu leiktíð en Víkingur úr Reykjavík lagði fram tilboð í Gylfa síðasta haust sem var umsvifalaust hafnað.
„Gylfi er langbesti leikmaður deildarinnar og hann er í betra standi núna en á sama tíma í fyrra,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is.
„Hann verður lykilmaður fyrir okkur í toppbaráttunni í sumar og það verður gaman að fylgjast með honum. Hann hefur spilað alla leiki Vals á undirbúningstímabilinu og lítur mjög vel út,“ sagði Arnór.
Hafa einhver tilboð borist í Gylfa að undanförnu?
„Það kom tilboð í haust frá Víkingum en annars hafa engin tilboð borist í hann. Tilboðið þyrfti að vera helvíti gott ef við ættum að taka það til greina. Það yrði að vera upphæð sem hefur ekki sést áður á Íslandi. Sjálfur hefur hann ekki óskað eftir því að fara og við gerum því ráð fyrir honum í okkar leikmannahóp, farandi inn í sumarið,“ bætti Arnór við í samtali við mbl.is.