„Tímabilið tók á andlega og það er erfitt þegar eitthvað sem manni þykir vænt um gengur ekki nægilega vel,“ sagði knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Theódór Elmar Bjarnason í Dagmálum.
Theódór Elmar, sem er 37 ára gamall, lagði skóna á hilluna í haust eftir farsælan feril og var ráðinn aðstoðarþjálfari uppeldisfélags síns KR.
Elmar upplifði erfiða tíma með uppeldisfélagi sínu KR síðasta sumar en liðið var í harðri fallbaráttu nánast allt tímabilið.
„Við vorum tilneyddir í ákveðna endurnýjun og ég held að við sjáum ekki eftir því núna,“ sagði Theódór Elmar.
„Ég var að skoða liðsmyndina frá árinu 2019 [þegar KR varð síðast Íslandsmeistari] og það er enginn eftir í liðinu frá þeim tíma. Ef eitthvað lið lifir það af og getur haldið sér í toppbaráttu þá skal ég taka hatt minn ofan af fyrir því,“ sagði Theódór Elmar meðal annars.