Arnar: „Leið á tímabili eins og að ég væri í framboði“

„Mér leið á tímabili eins og að ég væri í framboði,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í Dagmálum.

Arnar, sem er 51 árs gamall, var ráðinn landsliðsþjálfari þann 15. janúar eftir að hafa stýrt Víkingi úr Reykjavík frá árinu 2018 en liðið varð tvívegis Íslandsmeistari undir stjórn Arnars og fjórum sinnum bikarmeistari.

Gríðarlega ánægður og stoltur

Arnar var orðaður við landsliðsþjálfarastarfið strax í nóvember á síðasta ári og vildi margir sjá hann taka við liðinu áður en KSÍ tilkynnti að Åge Hareide yrði ekki áfram með liðið.

„Fólk skiptist í ýmsar fylkingar, bæði fjölmiðlar og aðrir, og það var mjög gaman að fylgjast með þessu utan frá,“ sagði Arnar.

„Ég varð strax mjög spenntur fyrir þessu starfi og fyrir viðtalinu. Ég var spenntur að heyra hvaða sýn forráðamenn KSÍ höfðu á starfið líka. Það getur vel verið að ég hafi aðeins verið að bulla, þegar ég talaði um að þetta væri mikilvægasta starf í heimi.

Mér leið samt þannig að tímapunkturinn væri mjög mikilvægur því við erum með svo öfluga leikmenn sem eru að koma inn en á sama tíma viðkvæman tímapunkt líka fyrir eldri leikmennina sem hafa leitt þjóðina undanfarinn áratug.

Það þurfti sterkan einstakling til þess að taka við þessu, á þessum tímapunkti, og ég er gríðarlega stoltur og ánægður að hafa fengið starfið,“ sagði Arnar meðal annars.

Viðtalið við Arnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert