Víkingar hafa staðfest komu Gylfa Þór Sigurðssonar til félagsins en þeir hafa keypt hann af Valsmönnum.
Á heimasíðu Víkings segir: Knattspyrnudeild Víkings vill þakka Knattspyrnudeild Vals fyrir heiðarleg og góð samskipti í kringum kaupin á Gylfa. Við bjóðum Gylfa Þór Sigurðsson hjartanlega velkominn í Hamingjuna og hlökkum til þess að fylgjast með honum á vellinum í sumar.
Gylfi er að hefja sitt annað tímabil á Íslandi eftir að hafa farið 15 ára gamall frá Breiðabliki til Reading árið 2005. Hann kom til liðs við Valsmenn fyrir síðasta tímabil og skoraði 11 mörk í 19 leikjum fyrir þá í Bestu deildinni, ásamt því að spila sex leiki fyrir félagið í bikarkeppni og Evrópukeppni.
Hann átti langan og farsælan feril sem atvinnumaður með Reading, þar sem hann var til að byrja með lánaður til Crewe og Shrewsbury, síðan með Hoffenheim í Þýskalandi og með Swansea, Tottenham og Everton í ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi er næstleikjahæsti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni með 318 leiki og sá markahæsti með 67 mörk. Samtals hefur hann skorað 110 mörk í 440 deildaleikjum á Englandi, í Þýskalandi og á Íslandi á ferlinum.
Gylfi er svo eitt af stóru nöfnunum í sögu íslenska landsliðsins eftir frammistöðuna með því á EM 2016 og HM 2018. Gylfi hefur leikið 83 landsleiki fyrir Íslands hönd og er markahæstur í sögu landsliðsins með 27 mörk.