Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir það mikilvægt fyrir liðið að laga varnarleikinn ætli það sér að ná einhverjum árangri.
Ísland fékk mikið af mörkum á sig í B-deild Þjóðadeildarinnar á síðasta ári. Á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag var Arnar spurður hvort hann liti sérstaklega til varnarleiksins sem einhvers sem þyrfti að bæta.
„Já, ég held að 70 prósent af minni vinnu fari akkúrat í það. Bæði fengum við á okkur mikið af mörkum en það sem var meira ógnvekjandi var að við fengum líka á okkur mikið af færum.
Ef við förum ennþá dýpra í tölfræðina, og það sem er ennþá hræðilegra, fengum við á okkur mikið af færum þrátt fyrir að spila fótbolta sem snerist ekki um að halda boltanum.
Í reynd vorum við í vörn töluverðan hluta af leikjum en samt vorum við að fá fullt af færum á okkur. Þetta þýðir það að við vorum ekki að fá nein verðlaun fyrir þann fótbolta sem við vorum að spila,“ sagði hann.
„Ég hef ekkert á móti því að spila lágvörn, miðvörn eða pressu en á endanum þarftu að fá einhver verðlaun fyrir það. Ef við spilum lágvörn þýðir það að við fáum á okkur fá færi og ef við spilum góða pressu viljum við fá snúa fljótt úr vörn í sókn og fá skyndisóknamörk.
Ef við spilum fótbolta sem miðar að því að halda boltanum þá viljum við fá fleiri tækifæri en andstæðingurinn. Þetta er ekkert flókið. Sókn vinnur leiki og varnir vinna titla.
Þetta er gömul saga en sannindi. Við munum aldrei ná árangri ef við náum ekki tökum á varnarleik okkar,“ hélt Arnar áfram.